Ein besta tilfinning sem ég hef upplifað

Hjálmar Stefánsson sækir á Taiwo Badmus úr Tindastóli í gærkvöldi.
Hjálmar Stefánsson sækir á Taiwo Badmus úr Tindastóli í gærkvöldi. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Þetta er æðislegt og ein besta tilfinning sem ég hef upplifað,“ sagði Hjálmar Stefánsson í samtali við mbl.is. Hjálmar var besti leikmaður Vals í 73:60-sigrinum á Tindastóli í oddaleik liðanna á Íslandsmótinu í körfubolta í gærkvöldi er Valur varð Íslandsmeistari. 

Tindastóll byrjaði mun betur en Hjálmar, nánast eins síns liðs, kom Val aftur inn í leikinn með glæsilegri innkomu af bekknum. „Mér leið mjög vel í kvöld og ég er ánægður með seríuna. Hún var ógeðslega skemmtileg og öllum fannst hún frábær. Það er magnað að enda hana með sigri.

Við spiluðum af hörku, eins og þeir gerðu alla fimm leikina. Þeir spiluðu af meiri hörku en við en svo í kvöld þá sýndum við meiri orku en þeir,“ sagði Hjálmar.

Hjálmar segir þetta einn allra besta leik sinn fyrir Val, en hann skoraði 24 stig og hitti afar vel. „Ég held það,“ sagði Hjálmar og játti því að hann hafi toppað á réttum tíma.

Titillinn er sá fyrsti sem Hjálmar vinnur og hann fær kennslu í fagnaðarlátum frá vönum mönnum. „Pavel og Kristó kenna mér að fagna,“ sagði hann léttur.  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert