Liðið vel frá augnablikinu sem ég kom til Íslands

Pablo Bertone skýtur að körfu Tindastóls í gærkvöldi.
Pablo Bertone skýtur að körfu Tindastóls í gærkvöldi. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Þetta er ótrúlegt og magnað á sama tíma,“ sagði hæstánægður Pablo Bertone, leikmaður Vals, í samtali við mbl.is eftir 73:60-sigurinn á Tindastóli í oddaleik um Íslandsmeistaratitilinn í körfubolta í Origo-höllinni í gærkvöldi.

„Þetta hefur verið frábært ár og þetta er flottur hópur. Við höfum lagt mikið á okkur allt árið og við höfum gert þetta skynsamlega. Við fengum Jacob Calloway fyrir seinni hlutann og það efldi okkur þegar við þurftum á því að halda. 

Hann var flott viðbót og allur hópurinn gerði mjög vel allt árið. Þetta var upp og niður, með Covid og allt það, en við ætluðum okkur að ná langt. Við toppuðum á réttum tíma í úrslitakeppninni,“ sagði Bertone.

Valsmenn náðu að hrista Tindastól af sér í fjórða leikhlutanum, eftir hnífjafnan og spennandi leik. „Undir lokin snerist þetta um hjarta og að vilja þetta meira. Við vorum með meiri orku og einbeitingu. Við töluðum um það í þremur síðustu leikjunum. Þeir þekkja okkur vel og við þá.

Pablo Bertone með boltann í gærkvöldi.
Pablo Bertone með boltann í gærkvöldi. mbl.is/Kristinn Magnússon

Í seinni hálfleik vildum við hætta að tapa boltanum óþarflega og alltaf að enda sóknir á skoti. Við gerðum það sem hafði virkað vel hjá okkur í seríunni, fyrir utan annan leikinn þar sem þeir voru miklu betri en við. Við stýrðum þessu vel á heimavelli sem okkur líður vel á.“

Bertone hefur leikið í Bandaríkjunum, á Spáni, í Argentínu og á Ítalíu. Titilinn í gær er sá fyrsti sem hann vinnur á atvinnumannaferlinum.

„Þetta er í fyrsta skipti sem ég verð meistari og þetta er toppurinn. Ég hef spilað fyrir framan fullt af fólki en að vinna fimm leikja seríu í úrslitum er æðislegt. Að vinna á heimavelli fyrir framan þetta fólk og fjölskyldur okkar er frábært. Ég hefði svo sannarlega tekið þessu fyrir tímabilið og að afreka þetta er glæsilegt,“ sagði Argentínumaðurinn. Hann er hæstánægður með veru sína á Íslandi, þar sem hann býr með kærustu sinni.

„Kærastan mín er með mér og við búum saman á Íslandi og við elskum það. Fjölskyldan mín hefur komið að heimsækja mig en því miður gat hún ekki verið hér í kvöld. Þau eru að horfa heima í Argentínu og á Spáni og alls staðar. Ég get ekki beðið eftir að tala við þau, því ég veit þau eru mjög glöð og eiga stóran þátt í þessu.

Ég hef komið víða við og ég vissi ekki við hverju ég átti að búast af Íslandi en land og þjóð hefur komið mér skemmtilega á óvart. Mér hefur liðið vel frá augnablikinu sem ég kom til Íslands. Fólkið er virkilega almennilegt og körfuboltinn er góður. Við erum mjög ánægð hérna og við viljum vera lengur,“ sagði Bertone.

mbl.is