Ægir magnaður þegar Gipuzkoa missti naumlega af umspili

Ægir Þór Steinarsson í leik með íslenska landsliðinu.
Ægir Þór Steinarsson í leik með íslenska landsliðinu. mbl.is/Árni Sæberg

Ægir Þór Steinarsson, landsliðsmaður í körfuknattleik, fór á kostum í liði Gipuzkoa þegar liðið lagði Castello með minnsta mun, 93:92, eftir framlengdan leik í lokaumferð spænsku B-deildarinnar í körfuknattleik karla í kvöld.

Ægir Þór skoraði 20 stig, tók níu fráköst, gaf sex stoðsendingar og stal boltanum tvisvar á 32 mínútum í leiknum í kvöld.

Fyrir leikinn átti Gipuzkoa möguleika á að tryggja sér sæti í umspili um laust sæti í spænsku úrvalsdeildinni að ári.

Til þess þurfti Gipuzkoa að vinna leik kvöldsins og treysta á hagstæð úrslit úr öðrum leikjum.

Það reyndist ekki niðurstaðan og gerði Gipuzkoa sér 11. sætið að góðu. Castello hafnaði í 10. Sæti en 9. sætið var síðasta sæti deildarinnar sem gaf umspilssæti.

mbl.is