Daníel ráðinn aðstoðarþjálfari Njarðvíkur

Daníel Guðni Guðmundsson þegar hann var aðalþjálfari Njarðvíkur árið 2018.
Daníel Guðni Guðmundsson þegar hann var aðalþjálfari Njarðvíkur árið 2018. Haraldur Jónasson/Hari

Daníel Guðni Guðmundsson hefur verið ráðinn aðstoðarþjálfari karlaliðs Njarðvíkur í körfuknattleik. Skrifaði hann undir tveggja ára samning og verður Benedikt Guðmundssyni aðalþjálfara til aðstoðar.

Daníel Guðni var síðast aðalþjálfari karlaliðs Grindavíkur en var látinn taka pokann sinn í lok febrúar á þessu ári.

Hann er öllum hnútum kunnugur hjá Njarðvík þar sem hann er uppalinn þar. Lék Daníel Guðni með karlaliðinu og var svo aðalþjálfari þess frá 2016 til 2018.

„Ég hlakka til komandi verkefnis. Það er alltaf gott að vera í Gryfjunni þar sem maður ólst upp. Ég var virkilega hrifinn af því sem liðið var á gera á síðasta tímabili og sömuleiðis hvernig samfélagið var að taka þátt í stemningunni. Ég hlakka mest til að læra af Benedikt sem er með mikla reynslu og þjálfaði mig þegar ég var 12-13 ára.

Ég kem inn með mínar áherslur sem tengjast leikgreiningum og undirbúningi fyrir leiki. Sömuleiðis það sem snýr að félags- og sálfræðihluta leiksins. Ég held að við Benni vegum hvor annan vel upp og ég vona að þetta verði bara frábært samstarf,“ sagði hann í samtali við heimasíðu Ungmennafélags Njarðvíkur.

Daníel Guðni bætti því við að honum hefði staðið það til boða að gerast aðalþjálfari hjá öðrum liðum en að hann hefði ekki gefið kost á því að svo stöddu.

„Ég var hrifinn af því að koma inn hingað sem aðstoðarþjálfari og vera með smá rödd í þessu. Vissulega eru heimahagarnir að draga aðeins í mann og umhverfi þar sem maður þekkir hvern kima og fólkið í kringum klúbbinn.“

mbl.is