Sannfærandi svar Boston

Marcus Smart átti stórleik í nótt.
Marcus Smart átti stórleik í nótt. AFP/Michael Reaves

Boston Celtics jafnaði einvígi sitt við Miami Heat í úrslitum Austurdeildarinnar í NBA-körfuboltanum í Bandaríkjunum með 127:102-útisigri í nótt. Staðan eftir tvo leiki er 1:1 en báðir leikir hafa farið fram í Miami.

Boston lagði grunninn að sigrinum með glæsilegum fyrri hálfleik en staðan eftir hann var 70:45 og skoruðu bæði lið 26 stig í þriðja leikhluta og bæði 31 í fjórða leikhluta. Boston-menn unnu því með 25 stiga mun.

Jayson Tatum skoraði 27 stig fyrir Boston og Marcus Smart gerði 24 stig, tók 9 fráköst og gaf 12 stoðsendingar. Jaylen Brown skoraði einnig 24 stig. Hjá Miami var Jimmy Butler í sérflokki með 29 stig en aðrir skoruðu minna en 15 stig.

Fjóra sigra þarf til að komast í lokaúrslitin. Sigurliðið úr þessu einvígi mætir annaðhvort Golden State Warriors eða Dallas Mavericks í úrslitum. 

mbl.is