Gamla ljósmyndin: Í úrslitum fyrir 30 árum

Morgunblaðið/Einar Falur Ingólfsson

Íþrótta­deild Morg­un­blaðsins og mbl.is held­ur áfram að gramsa í mynda­safni Morg­un­blaðsins og birta á mbl.is á laug­ar­dög­um. 

Þar til á nýloknu Íslandsmóti hafði karlalið Vals í körfuknattleik ekki leikið til úrslita á Íslandsmótinu í þrjá áratugi. Árið 1992 mætti Valur liði Keflavíkur í úrslitum og tapaði 3:2 eftir að hafa komist 2:1 yfir.

Frank Booker var þá í stóru hlutverki í Valsliðinu en hann er einn þeirra erlendu leikmanna sem hingað hafa komið og heillað íþróttaunnendur. Meðfylgjandi mynd tók Einar Falur Ingólfsson fyrir Morgunblaðið í úrslitarimmu Keflavíkur og Vals í Keflavík árið 1992 þar sem Booker sækir að körfu Keflvíkinga.

Booker lék með Val 1992-1994 og var stigahæsti leikmaður úrvalsdeildarinnar 1992 og 1994. Síðasta tímabil Bookers á Íslandi var árið eftir með Grindavík. Þegar hann bjó á Íslandi eignaðist hann soninn Frank Aron Booker sem leikur með Breiðabliki og á að baki landsleiki fyrir Ísland.

Booker var baneitraður fyrir utan þriggja stiga línuna og því fengu íslensk lið að kynnast. Booker er fæddur í Augusta í Georgíuríki arið 1964 en í þeirri borg er Mastersmótið í golfi haldið. New Jersey Nets valdi Booker seint í nýliðavalinu í NBA árið 1987. Hann fékk tækifæri til að spreyta sig í undirbúningsleikjum með Nets, Miami Heat og Cleveland Cavaliers en fékk ekki samning. Hann kom til ÍR á miðju keppnistímabili 1990-1991 og hófst þá flugeldasýning.

Skoraði hann 15 þriggja stiga körfur í fyrsta leik sínum fyrir ÍR gegn Njarðvík í 8.janúar 1991 og setti met. Áður en mánuðurinn var liðinn hafði hann endurtekið það afrek gegn Snæfelli. Skoraði hann 54 stig gegn Njarðvík og 60 gegn Snæfelli.

Einn sigursælasti leikmaður Íslandsmótsins frá upphafi, Teitur Örlygsson, var í Njarðvíkurliðinu þegar Booker lék sinn fyrsta leik á Íslandi. Hann leit um öxl í Morgunblaðinu 2009 og rifjaði þá upp leikinn.

„Booker byrjaði leikinn á því að hitta ekki úr þremur eða fjórum fyrstu skotunum sínum og við vorum eiginlega farnir að hlæja að þessum nýja leikmanni. Töldum að hann gæti ekki neitt. Síðan byrjaði sýningin hjá honum og hann skoraði 15 þriggja stiga körfur úr 22 tilraunum og alls 54 stig. Ég þekkti ekki Booker persónulega en hann var gríðarleg skytta og gat skotið af lengra færi en menn höfðu vanist hér á landi. Booker er einn af eftirminnilegustu leikmönnum sem hafa leikið hér á Íslandi,“ sagði Teitur Örlygsson.

Hér að neðan sjást Keflvíkingarnir Kristinn Friðriksson (5) og Albert Óskarsson í vörninni. 

Einar Falur Ingólfsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert