Sá besti til liðs við nýliðana

Daniel Mortensen mun spila með Haukum á næstu leiktíð.
Daniel Mortensen mun spila með Haukum á næstu leiktíð. mbl.is/Óttar Geirsson

Danski körfuknattleiksmaðurinn Daniel Mortensen hefur samið við Hauka og mun hann leika með liðinu á næstu leiktíð. Haukar verða nýliðar í efstu deild eftir að hafa fagnað sigri í 1. deildinni á nýliðinni leiktíð.

Mortensen var í gær kjörinn besti erlendi leikmaður Subway-deildarinnar en hann lék með Þór frá Þorlákshöfn á síðasta tímabili.

Hann skoraði 18 stig og tók 9 fráköst að meðaltali í leik með Þórsurum en liðið fór í undanúrslit Íslandsmótsins og tapaði að lokum fyrir nýkringdum Íslandsmeisturum Vals.

Hann hefur einnig leikið í Svíþjóð, á Spáni og í heimalandinu.

mbl.is