Biðjast afsökunar og semja við Milka að nýju

Dominykas Milka leikur áfram með Keflavík á næsta tímabili.
Dominykas Milka leikur áfram með Keflavík á næsta tímabili. Kristinn Magnússon

Körfuknattleiksdeild Keflavíkur hefur tilkynnt að uppsögn á samningi Dominykas Milka, leikmanni karlaliðsins undanfarin þrjú ár, hafi verið dregin til baka og að hann muni því að minnsta kosti leika með liðinu í eitt ár til viðbótar.

„Talsverð óvissa ríkti um ástæður uppsagnarinnar þegar ný stjórn tók við stjórnartaumum hjá KKDK og var því sett í forgang að ræða við leikmanninn. Það var strax ljóst á þeim samtölum að báðir aðilar höfðu áhuga á því að halda samstarfinu áfram.

Var það því sameiginleg ákvörðun nýrrar stjórnar og Dominykas Milka að uppsögnin yrði dregin til baka og Milka héldi áfram sem leikmaður Keflavíkur. Auðvitað hefur óvissan ekki verið góð, hvorki fyrir deildina né Milka sjálfan.

Þykir því rétt að biðja hlutaðeigandi aðila afsökunar um leið og horft er fram veginn með þau sameiginlegu markmið að gera eins vel á næsta tímabili og hugsast getur með gleði og skemmtun að vopni,“ sagði meðal annars í tilkynningu körfuknattleiksdeildar Keflavíkur.

Milka var með 15 stig og tíu fráköst að meðaltali í leik í þeim 27 leikjum sem hann lék fyrir Keflavík á nýafstöðnu tímabili og leiddi í teknum fráköstum í liðinu.

mbl.is