Miami tók forystuna á ný

Bam Adebayo fagnar í nótt.
Bam Adebayo fagnar í nótt. AFP/Elsa

Miami Heat vann nauman sigur á Bolton Celtics, 109:103, þegar liðin mættust þriðja sinni í úrslitaeinvígi austurdeildar NBA-deildarinnar í körfuknattleik í nótt. Miami er þar með komið í 2:1-forystu í einvíginu.

Hreint magnaður leikur Jaylen Brown dugði ekki til fyrir Boston en hann skoraði 40 stig og tók níu fráköst að auki. Al Horford samherji hans lék sömuleiðis vel er hann skoraði 20 stig og tók 14 fráköst.

Í liði Miami steig Bam Adebayo upp, lék frábærlega og skoraði 31 stig auk þess að taka tíu fráköst, gefa sex stoðsendingar og stela boltanum fjórum sinnum.

Helstu stjörnur beggja liða í úrslitakeppninni til þessa náðu sér ekki á strik í nótt.

Jimmy Butler skilaði aðeins átta stigum fyrir Miami og Jayson Tatum skoraði tíu stig fyrir Boston, þar sem hann hitti aðeins úr þremur skotum af 14 utan af velli.

Liðin mætast næst í fjórða leik sínum aðfaranótt næstkomandi þriðjudags.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert