Boston jafnaði metin með stórsigri

Jayson Tatum vígreifur í nótt.
Jayson Tatum vígreifur í nótt. AFP/Elsa

Boston Celtics jafnaði metin í 2:2 í úrslitaeinvígi sínu við Miami Heat í austurdeild NBA-deildarinnar í körfuknattleik með því að vinna öruggan 102:82-sigur í fjórða leik liðanna í nótt.

Byrjunarlið Miami náði sér engan veginn á strik þar sem enginn þeirra náði að skora yfir tíu stig.

Stigahæstur leikmanna Miami var Victor Oladipo sem kom inn af varamannabekknum og skoraði 23 stig.

Jayson Tatum var hins vegar stigahæstur allra í leiknum með 31 stig fyrir Boston auk þess sem hann tók átta fráköst.

Fór hann svo meiddur af velli undir lok leiksins vegna eymsla í hálsi en skaðinn var skeður enda öruggur 20 stiga sigur Boston staðreynd.

Fjóra sigra þarf til þess að tryggja sér sigur í úrslitaeinvígi austurdeildarinnar og því allt galopið ennþá. Sigurvegarinn fer í úrslitaeinvígi NBA-deildarinnar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert