Ragnar aftur til uppeldisfélagsins

Ísak Máni Wíum, þjálfari ÍR, ásamt Ragnari Erni Bragasyni.
Ísak Máni Wíum, þjálfari ÍR, ásamt Ragnari Erni Bragasyni. Ljósmynd/ÍR

Körfuknattleiksmaðurinn Ragnar Örn Bragason hefur skrifað undir eins árs samning við ÍR og mun því leika með uppeldisfélagi sínu á næsta tímabili.

Ragnar Örn, sem er 27 ára gamall bakvörður, kemur frá Þór úr Þorlákshöfn, þar sem hann varð Íslandsmeistari á síðasta ári.

Hann hóf meistaraflokksferil sinn með ÍR en gekk svo til liðs við Þór sumarið 2015. Hann skipti yfir til Keflavíkur tímabilið 2017/2018 en fór þaðan aftur til Þórs að því loknu og hefur verið í Þorlákshöfn síðan.

„Aðspurður svaraði Ísak Máni Wíum [þjálfari ÍR] því til að hann sé mjög ánægður með félag[a]skipti Ragga. Þykir honum einsýnt að Raggi færi hópnum þá reynslu og stemmningu sem þörf er á til að koma félaginu á þann stað sem stefnt er að. Einnig sé koma hans sérlega ánægjuleg í ljósi þess að um ræðir uppalinn leikmann enda sé markmið hans sem þjálfara leynt og ljóst að byggja liðið upp á heimamönnum.

Raggi sagði í stuttu og snörpu samtali við fréttaritara að í honum ríkti mikil tilhlökkun fyrir komandi tímum í hans heimabyggð og á nýjum heimavelli. Hann væri klár í nýja áskorun á hans ferli og sagðist hann þess fullviss að liðið myndi smella saman og ná árangri,“ sagði meðal annars í tilkynningu frá körfuknattleiksdeild ÍR í gærkvöldi.

mbl.is