Doncic gaf Dallas veika von

Luka Doncic treður í nótt.
Luka Doncic treður í nótt. AFP/Tom Pennington

Slóveninn Luka Doncic átti enn einn stórleikinn fyrir Dallas Mavericks þegar liðið vann góðan 119:109-sigur á Golden State Warriors í fjórða leik liðanna í úrslitaeinvígi vesturdeildar NBA-deildarinnar í körfuknattleik í nótt.

Golden State hefði með sigri sópað Dallas í sumarfrí en Dallas minnkaði þess í stað muninn í 3:1 í einvíginu.

Doncic skoraði 30 stig, tók 14 fráköst og gaf níu stoðsendingar fyrir Dallas í nótt.

Liðsfélagi hans Dorian Finney-Smith var næststigahæstur í leiknum með 23 stig.

Steph Curry var stigahæstur í liði Golden State með 20 stig auk þess sem hann gaf fimm stoðsendingar.

Liðin mætast í fimmta leik sínum aðfaranótt föstudags.

mbl.is