Besti ungi leikmaðurinn til Þorlákshafnar

Daníel Ágúst Halldórsson er orðinn leikmaður Þórs frá Þorlákshöfn.
Daníel Ágúst Halldórsson er orðinn leikmaður Þórs frá Þorlákshöfn. Ljósmynd/Þór Þ.

Körfuknattleiksmaðurinn Daníel Ágúst Halldórsson hefur skrifað undir tveggja ára samning við Þór frá Þorlákshöfn. Hann kemur til félagsins frá Fjölni.

Daníel, sem er á 18. aldursári, skoraði 14,3 stig, tók 5,4 fráköst og gaf 5,6 stoðsendingar að meðaltali í leik í 1. deildinni á síðustu leiktíð. Hann var valinn besti ungi leikmaður 1. deildarinnar á lokahófi KKÍ í síðustu viku.

Þór endaði í 2. sæti Subway-deildarinnar á síðustu leiktíð og tapaði 0:3 í undanúrslitum fyrir verðandi meisturum í Val. Þá fór liðið í úrslitaleik bikarkeppninnar en tapaði fyrir Stjörnunni.

mbl.is