Miami tryggði sér oddaleik

Jimmy Butler, sem átti magnaðan leik, leggur boltann ofan í …
Jimmy Butler, sem átti magnaðan leik, leggur boltann ofan í körfuna. AFP/Kathryn Riley

Miami Heat og Boston Celtics mætast í hreinum oddaleik um sæti í úrslitum NBA-deildarinnar í körfubolta. Þetta varð ljóst eftir 111:103-útisigur Miami í Boston í nótt. Staðan í einvíginu er 3:3.

Gestirnir úr Miami voru yfir nánast allan tímann og var staðan í hálfleik 48:46. Miami vann svo þriðja leikhlutann 34:29 og tókst Boston ekki að jafna í fjórða leikhluta.

Jimmy Butler fór hamförum hjá Miami og skoraði 47 stig, tók 9 fráköst og gaf 8 stoðsendingar. Kyle Lowry skoraði 18 stig og gaf 10 stoðsendingar. Jasyson Tatum skoraði 30 stig og tók 9 fráköst fyrir Boston og Derrick White skoraði 22.

Oddaleikurinn fer fram sunnudagsnótt í Miami og sigurliðið leikur við Golden State Warriors í úrslitum.

mbl.is