Selfyssingar styrkja sig

Srdjan Stojanovic í leik með Þór frá Akureyri á síðasta …
Srdjan Stojanovic í leik með Þór frá Akureyri á síðasta ári. Ljósmynd/Þórir Tryggvason

Karlalið Selfoss í körfuknattleik hefur samið við þrjá nýja leikmenn og endursamið við þrjá leikmenn sem léku með liðinu á síðustu leiktíð.

Serbinn Srdjan Stojanovic og hinir efnilegu Arnaldur Grímsson og Ísak Júlíus Perdue eru gengnir til liðs við Selfoss.

Þá skrifuðu Sigmar Jóhann Bjarnason, Arnar Geir Líndal og Ísar Freyr Jónasson undir nýja samninga.

Selfoss leikur í 1. deild, næstefstu deild hér á landi.

Körfuknattleiksdeild Selfoss tilkynnti um komur Stojanovic auk Arnaldar og Ísaks Júlíusar og nýja samninga Sigmars Jóhanns, Arnars Geirs og Ísars Freys í nokkrum tilkynningum.

Tilkynningarnar teknar saman:

„Srdjan, sem er 31 árs gamall, þekkir vel til á Íslandi en hann lék tvö tímabil með Fjölni í 1. deild , 2018-2020, og eitt tímabil með Þór Akureyri í efstu deild, 2020-2021. Seinna tímabilið með Fjölni skilaði Srdjan 20 stigum, 6 fráköstum og 4 stoðsendingum á tæpum 33 mínútum. Með Þór Ak. í Dominósdeildinni ’20-’21 spilaði Srdjan einnig um 33 mínútur, í 26 leikjum, skoraði 15,6 stig, tók 4 sóknarfráköst og gaf 3 stoðsendingar að meðaltali, og var með rúmlega 40% skotnýtingu, jafnt utan sem innan þriggjastigalínunnar. Hann lék á Írlandi á síðasta tímabili.

Arnaldur Grímsson er alinn upp hjá Val. Arnaldur er á 20. aldursári og lék með Vestra í Subway deildinni í fyrra. Hann spilaði þar 10 mínútur, skoraði 3,4 stig og tók 3 fráköst að meðaltali í 21 leik. Arnaldur er öflugur framherji og mjög vaxandi og átti skínandi leiki þegar líða fór á tímabilið.

Ísak Júlíus Perdue er alinn upp hjá Þór í Þorlákshöfn. Hann er á 19. aldursári, hefur stundað nám í FSu og verið í körfuboltaakademíunni á Selfossi. Ísak var í sterkmum leikmannahópi Þórs í Subwaydeildinni í 27 leikjum. Hann leitar nú nýrra tækifæra og stærri áskorana með auknum spilatíma í 1. deildinni. Ísak er ekki hávaxinn en líkamlega sterkur og öflugur leikstjórnandi sem á framtíðina fyrir sér.

Sigmar Jóhann Bjarnason tekur sitt fjórða tímabil með Selfossliðinu. Sigmar verður seint fullmetinn í leikmannahópnum en hann var fyrirliði liðsins á síðasta tímabili, 22 ára gamall. Sigmar spilaði um 11 mínútur að meðaltali í 23 leikjum í fyrra.

Arnar Geir Líndal mun leika sitt annað tímabil í Selfossbúningnum. Hann er 22 ára, setti 3 stig á um 12 mínútum að meðaltali í 23 leikjum í fyrra.

Ísar Freyr Jónasson er á 20. aldursári og kom til liðs við Selfoss frá KR í fyrra. Ísar spilaði 24 mínútur, skoraði 5 stig og tók 3 fráköst að meðaltali í 22 leikjum. Ísar var einnig í þjálfarateymi yngriflokka á Selfossi, vinsæll þjálfari og góð fyrirmynd. Hann er í æfingahóp U20 ára landsliðsins.“

mbl.is