„Maður veit svo lítið hvernig staðan er“

Elvar Már Friðriksson fyrir æfingu landsliðsins í Ólafssal í gær.
Elvar Már Friðriksson fyrir æfingu landsliðsins í Ólafssal í gær. mbl.is/Arnþór Birkisson

Elvar Már Friðriksson, landsliðsmaður í körfuknattleik, kveðst því feginn að hafa fengið fleiri daga til undirbúnings en venja er í landsleikjagluggum fyrir mikilvægan leik gegn Hollandi í 1. umferð undankeppni HM 2023 næstkomandi föstudagskvöld.

„Það er bara fínt að vera kominn hingað. Þetta er svolítið skrítinn tími á glugganum finnst mér, svona rétt eftir tímabil og mismunandi hvenær menn spiluðu síðast. Þetta er aðeins öðruvísi og við erum svolítið búnir að vera að reyna að finna takt þessa vikuna, það er svona aðalatriðið í því sem við höfum verið að gera.

Við þekkjum allt kerfið þannig að það hefur verið aðalmálið að finna taktinn og koma okkur í gang aftur fyrir þennan leik,“ sagði Elvar Már í samtali við mbl.is fyrir æfingu landsliðsins í Ólafssal á Ásvöllum í gær, þar sem leikurinn á föstudag fer fram.

Íslenska landsliðið hóf undirbúning sinn um þarsíðustu helgi þegar 26-manna æfingahópur kom saman. Elvar Már sagði það að fá þetta langan undirbúning fyrir leikinn afar góðs viti.

„Já algjörlega og eiginlega bara nauðsynlegt. Það eru til dæmis komnir einhverjir þrír mánuðir síðan ég spilaði körfubolta. Að geta hlaupið mikið fram og til baka og ná púlsinum og leikforminu svolítið í gang, það skiptir miklu máli. Þetta er mikilvægur leikur og við viljum vera í góðu standi fyrir hann.“

Eftir að hafa gengið til liðs við Dethrona Tortona á Ítalíu fyrir um þremur mánuðum síðan hefur hann lítið sem ekkert fengið að spila og íhugar nú framtíð sína eins og greint var frá á mbl.is í gær.

Bæði lið breyst frá því síðast

Ísland vann nauman sigur á Hollandi ytra í fyrri leik liðanna í H-riðli 1. umferðar, 79:77, þar sem Martin Hermannsson fór á kostum og skoraði 27 stig. Hann verður ekki með um langt skeið eftir að hafa slitið krossband í síðasta liðið. Kristófer Acox tók einnig þátt í þeim leik en er frá vegna meiðsla á fæti.

Elvar Már sagði íslenska liðið því vera með svolítið frábrugðið lið frá síðustu viðureign gegn Hollandi en að það ætti líka við um mótherjana.

„Leikurinn leggst bara vel í okkur. Ég held að það sé bara gott að fá heimaleik. Við erum með aðeins öðruvísi lið en við vorum með síðast á móti Hollandi og ég veit að þeir eru líka með smá öðruvísi lið en síðast.

Auðvitað eru þeir í sömu stöðu og við þar sem menn eru að spila strax eftir tímabilið og mismunandi hvenær þeir spiluðu síðast.“

„Ég held að þetta verði bara 50/50 leikur og ég held að þetta verði svolítið fróðlegt, það er eiginlega lítið sem maður getur sagt um leikinn af því að maður veit svo lítið hvernig staðan er,“ sagði hann að lokum í samtali við mbl.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert