Maður verður að vera bjartsýnn

Hilmar Pétursson er í fyrsta skipti í 16 manna æfingahópi …
Hilmar Pétursson er í fyrsta skipti í 16 manna æfingahópi landsliðsins. mbl.is/Arnþór Birkisson

Sextán manna hópur íslenska karlalandsliðsins í körfubolta var tilkynntur í gær fyrir síðasta leikinn í fyrri hluta undankeppni HM 2023. Einn nýliði er í hópnum.

Hann 22 ára gamli Hilmar Pétursson spilar með Breiðabliki ásamt bróður sínum Sigurði Péturssyni, undir stjórn föður þeirra Péturs Ingvarssonar. Hann átti virkilega gott tímabil og var valinn í úrvalslið Subway-deildar karla.

Þetta er í fyrsta skipti sem Hilmar er í 16 manna æfingahópi A-landsliðsins. „Þetta er mjög gaman og mikill heiður. Maður er spenntur að vera loksins í hóp með þeim bestu og maður lærir mjög mikið á því að vera með þeim. Ég átti gott tímabil með Breiðabliki í vetur og finnst ég vera búinn að vinna mig inn í æfingahópinn.“

Leikurinn á föstudaginn er á móti Hollandi á heimavelli. Einn niðurskurður er eftir, leikmönnum verður fækkað úr 16 í 12. „Þetta er bara 16 manna hópurinn og vonandi kemst ég inn í liðið á föstudaginn. Maður verður að vera bjartsýnn á að komast í hóp, berja í karlana og láta almennilega finna fyrir sér. Það er ekkert gefið í þessu.“

Með framtíðina hans í Breiðabliki segir hann ekkert ákveðið. „Ég er að reyna að komast út, helst til Evrópu og er komin með eitt tilboð en það er í bið eins og staðan er núna og það kemur allt í ljós seinna.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert