NBA-stjarna handtekin vegna gruns um heimilisofbeldi

Miles Bridges í leik með Charlotte Hornets á síðasta tímabili.
Miles Bridges í leik með Charlotte Hornets á síðasta tímabili. AFP

Miles Bridges, leikmaður Charlotte Hornets í NBA-deildinni í körfuknattleik undanfarin fjögur tímabil, var handtekinn í Los Angeles-borg í Bandaríkjunum í gær, grunaður um gróft heimilisofbeldi í garð konu.

Talskona hjá lögreglunni í Los Angeles upplýsti TMZ Sports um að kona hafi sagst hafa átt í rifrildi við Bridges á þriðjudag, sem hafi endað með líkamlegu ofbeldi.

Samkvæmt TMZ Sports var lögregla kölluð á vettvang en Bridges hafði þá yfirgefið svæðið. Konan þurfti á læknishjálp að halda.

Bridges gaf sig fram við lögreglu í Los Angeles í gær og var þá handtekinn. Honum var síðan sleppt lausum gegn tryggingu, sem hljóðaði upp á 130.000 dollara.

Bridges er með lausan samning sem stendur en Charlotte gaf það út á dögunum að það vilji framlengja við hann.

Um handtökuna sagði Charlotte í yfirlýsingu að félaginu væri kunnugt um hana, það væri að afla sér frekari upplýsinga og myndi ekki tjá sig frekar um málið að svo stöddu.

Síðasta tímabil Bridges í NBA-deildinni var hans besta til þessa er hann skoraði 20,2 stig, tók sjö fráköst og gaf 3,8 stoðsendingar að meðaltali í leik fyrir Charlotte.

mbl.is