Elvar að skóla þá fram og til baka

Jón Axel Guðmundsson með boltann í kvöld.
Jón Axel Guðmundsson með boltann í kvöld. mbl.is/Óttar Geirsson

Jón Axel Guðmundsson, landsliðsmaður í körfubolta, var skiljanlega kátur eftir 67:66-heimasigur á Hollandi í undankeppni heimsmeistaramótsins. Ísland var mest 14 stigum undir í fyrri hálfleik en góður seinni hálfleikur skilaði sætum sigri. 

„Við töluðum um í hálfleik að við vorum flatir og vorum að spila þetta eins og einhvern æfingaleik. Við komum brjálaðir inn í seinni hálfleikinn, fengum stúkuna með okkur og þá fór þetta að detta okkar megin,“ sagði Jón Axel við mbl.is eftir leik. 

„Það er langt síðan menn spiluðu körfubolta. Við höfum bara æft upp á síðkastið. Þeir eru búnir að spila æfingaleik en við ekki og því vorum við aðeins meira ryðgaðir. Það sást í seinni hálfleik að við hittum betur þegar ryðgið var komið af okkur,“ bætti hann við. 

Ísland hefur fagnað sigri eftir marga jafna leiki síðustu ár og Jón Axel segir að sú reynsla komi sér vel. Þá hrósaði hann Elvari Má Friðrikssyni í leikslok, en Elvar átti stórgóðan fjórða leikhluta. 

„Ég vissi að við vorum að fara að klára þetta. Við erum búnir að klára Ítalíu og Holland úti í svona jöfnum leikjum. Við kunnum þetta. Ég var lítið stressaður inni á vellinum, sérstaklega þegar Elvar er að skóla þá til fram og til baka. Það er enginn að fara að stoppa hann í ham.“

Jón Axel er án félags sem stendur og er óvíst hvað tekur við hjá Grindvíkingnum. „Ég er með æfingabúðasamninga í Bandaríkjunum og svo eru tilboð frá Þýskalandi og öðrum löndum,“ sagði Jón Axel.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert