Stórkostlegur endurkomusigur Íslands

Ísland vann stórglæsilegan 67:66-endurkomusigur á Hollandi er liðin mættust í H-riðli í undankeppni heimsmeistaramóts karla í körfubolta í Ólafssal á Ásvöllum í kvöld.

Sigurinn þýðir að Ísland tekur þrjá sigurleiki með sér í lokastig undankeppninnar þar sem liðið mætir Úkraínu, Georgíu og Spáni heima og að heiman.

Mikið jafnræði var með liðunum í upphafi leiks og var staðan 8:8 þegar fyrsti leikhluti var hálfnaður. Eftir því sem leið á leikhlutann fóru Hollendingar hinsvegar að hitta betur. Gestirnir voru því fjórum stigum yfir í hálfleik, 20:16.

Það hrökk allt í baklás hjá íslenska liðinu í öðrum leikhluta. Fyrstu stig Íslands komu eftir sjö mínútur í leikhlutanum og var Holland þá komið með fínt forskot. Gestirnir hittu ágætlega fyrir utan á meðan skotnýting íslenska liðsins fyrir utan þriggja stiga línuna var afleit, eða ein karfa í sextán tilraunum. Þegar leikhlutinn var á enda var Holland með fjórtán stiga forskot, 35:21.

Ísland byrjaði seinni hálfleikinn af krafti og skoraði sjö stig í röð á tæpum tveimur mínútum í upphafi þriðja leikhluta. Munurinn var svo aðeins fimm stig skömmu síðar, 35:30. Munaði áfram fimm stigum þegar þriðji leikhluti var hálfnaður, 38:33.  Ægir Þór Steinarsson skoraði þá tvö stig og fékk víti að auki sem fór ofan í og var munurinn kominn niður í tvö stig, 38:36. Að lokum munaði fjórum stigum á liðunum fyrir fjórða og síðasta leikhlutann, 51:47.

Ísland byrjaði fjórða leikhlutann nokkuð vel og var munurinn aðeins eitt stig þegar tæpar fjórar mínútur voru búnar af leikhlutanum, 54:53, eftir fjögur eldsnögg stig í röð hjá Elvari Má Friðrikssyni. Tryggvi Snær Hlinason skoraði skömmu síðar og kom Íslandi yfir í fyrsta skipti síðan í stöðunni 8:5.

Þegar mínúta var eftir var Ísland einu stigi yfir, 67:66. Hvorugu liðinu tókst að skora eftir það og Ísland vann því með minnsta mun eftir gríðarlega spennu.  

Tryggvi Snær Hlinason og Elvar Már Friðriksson voru stigahæstir í íslenska liðinu með 20 stig hvor. Haukur Helgi Pálsson gerði 9, Ægir Þór Steinarsson 7, Jón Axel Guðmundsson 5, Hörður Axel Vilhjálmsson 3, Kári Jónsson tvö og Sigtryggur Arnar Björnsson 1. Þeir Ólafur Ólafsson og Styrmir Snær Þrastarson komu einnig við sögu en Þórir Guðmundur Þorbjarnarson og Ragnar Nathanaelsson komu ekki inná.

Tryggvi tók 11 fráköst og varði þrjú skot, Jón Axel tók 6 fráköst, Ægir, Elvar og Haukur 4 hver. Jón Axel átti 5 stoðsendingar, Ægir, Hörður og Haukur 3 hver.

Worthu De Jong skoraði 15 stig fyrir Hollendinga og Yannick Franke. Hollendingar hafa tapað öllum þremur leikjum sínum í riðlinum með samtals fimm stiga mun en þeir eiga eftir heimaleikinn gegn Ítölum.

Ísland 67:66 Holland opna loka
99. mín. skorar
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert