Leið asnalega vel

Tryggvi Snær Hlinason tekur vítaskot í kvöld.
Tryggvi Snær Hlinason tekur vítaskot í kvöld. mbl.is/Óttar Geirsson

Tryggvi Snær Hlinason átti sterkan leik er Ísland vann sætan 67:66-heimasigur á Hollandi í undankeppni HM í körfubolta í Ólafssal á Ásvöllum í kvöld. Ísland var 14 stigum undir í hálfleik en tryggði sér sigurinn með sterkum seinni hálfleik.

„Það var smá orkuleysi hjá okkur í fyrri hálfleik og þá sérstaklega í öðrum leikhluta. Við vorum samt að spila vel en ekki að setja skotin. Við vissum að okkar áhlaup myndi koma og að þetta væri leikur enn þá, þrátt fyrir að vera 14 stigum undir. Við þéttum okkur saman og byrjuðum þriðja leikhluta af krafti,“ sagði Tryggvi.

Þrátt fyrir mikla spennu í lokin var Tryggvi rólegur á lokakaflanum. „Mér leið eiginlega asnalega vel. Ég hafði fulla trú á þessu. Elvar gerði tvær körfur, nánast upp á eigin spýtur, og það hjálpaði okkur í lokin. Lokafrákastið hjá Hauki kláraði þetta svo. Þetta var barátta.“

Íslenska liðið hefur unnið marga hnífjafna heimaleiki að undanförnu og leikurinn í kvöld bættist í safnið. „Það er hugarfarið okkar. Við ætlum okkur alltaf að ná í þessa sigra. Við getum ekki unnið alla leiki en við munum alltaf berjast allt til enda.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert