Sjálfstraustið kom eftir Evrópuskrefin

Elvar Már Friðriksson í eldlínunni í kvöld.
Elvar Már Friðriksson í eldlínunni í kvöld. mbl.is/Óttar Geirsson

„Svart og hvítt,“ sagði Elvar Már Friðriksson, landsliðsmaður í körfubolta, um muninn á fyrri og seinni hálfleik íslenska liðsins í 67:66-heimasigri á Hollandi í undankeppni HM í Ólafssal á Ásvöllum í kvöld.

Ísland var 14 stigum undir í hálfleik en tókst með góðum seinni hálfleik að snúa leiknum sér í vil.

„Þetta var frekar þungt í fyrri hálfleik. Við vorum ekki að hlaupa og nota orkuna sem við höfðum og það tók okkur tíma að finna taktinn. Við ákváðum að snúa því við í seinni hálfleik. Eitt, tvö skot ofan í og þá myndast stemning bæði hjá liðinu og áhorfendum. Þá var auðvelt að byggja ofan á það þegar maður fékk auka kraft og auka orku. Það smitaðist út í alla og gaf okkur sigurinn,“ útskýrði Njarðvíkingurinn.

Hann segir leikmenn og þjálfara hafa verið rólega í hálfleik, en íslenska liðið skoraði níu fyrstu stigin í seinni hálfleik.

„Þeir voru frekar rólegir og yfirvegaðir. Það er engin ástæða til að öskra á fullorðna menn. Það var talað og farið yfir hluti sem þurfti að breyta og talað um að halda áfram og setja þessi skot. Þegar þau fóru að detta þá kom þetta.“

Elvar fór sjálfur hægt af stað í leiknum en var langbesti leikmaður vallarins í fjórða leikhluta.

„Það er orðið svolítið síðan flestir í liðinu spiluðu. Ég hafði t.d. ekki spilað í þrjá mánuði. Ég var lengi í gang og ekki í takti. Þá er bara að halda áfram, þótt þreytan var byrjuð að segja til sín. Ég fékk aukakraft frá stúkunni og gat haldið áfram.“

Aðspurður um hvort eitthvert augnablik í leiknum hafði kveikt í sér, talaði hann um glæsilega körfu sem hann skoraði eftir að hafa dansað framhjá varnarmanni.

„Þegar ég tók Evrópuskrefin og skoraði ég fann ég sjálfstraustið koma,“ sagði Elvar og hélt áfram. „Það eru þessir litlu hlutir. Eins og þegar Jón Axel tók ruðninginn í lokin og Ægir og Haukur tóku sóknarfráköst. Allir þessir litlu hlutir sköpuðu sigurinn í lokin,“ sagði Elvar.

mbl.is