Þetta skiptir miklu máli

Craig Pedersen
Craig Pedersen mbl.is/Arnþór Birkisson

Kanadamaðurinn Craig Pedersen, þjálfari íslenska karlalandliðsins í körfubolta, var kátur er hann ræddi við mbl.is eftir sætan 67:66-heimasigur á Hollandi í undankeppni HM í kvöld. Aðspurður eftir leik hvernig púlsinn hafi verið á lokamínútunum viðurkenndi hann að hafa verið ögn stressaður.

„Á þeim tíma ertu að átta þig á að leikurinn mun ráðast á síðustu sekúndunni og þú ert að velta fyrir þér hvaða kerfi þú átt að keyra í lokin. Þetta var auðvitað stressandi því leikurinn gat dottið hvorn veginn sem er en við vorum mjög góðir í fráköstunum í lokin og Elvar gerði vel í að komast að körfunni og skora mikilvægar körfur,“ sagði hann við mbl.is.

Ísland var 14 stigum undir í hálfleik en Pedersen sagði frammistöðuna ekki hafa verið alslæma.

„Við fengum fullt af opnum skotum í fyrri hálfleik en þau voru ekki að detta. Þá fórum við að hengja haus og orkan var ekki nógu góð á bekknum. Við ræddum um að við þurftum að koma áhorfendum inn í leikinn með því að byrja seinni hálfleikinn betur. Það tókst með því að skora sjö fyrstu stigin.

„Holland er gott og stórt lið sem gerði okkur erfitt fyrir. Við gáfumst hinsvegar ekki upp og leikmenn eins og Haukur gerðu mjög vel í baráttunni við stóru mennina þeirra. Það var mikið af litlum hlutum sem skiluðu sigrinum í kvöld,“ sagði hann.

Ísland er komið í næsta stig undankeppninnar þar sem leikir við Úkraínu, Georgíu og Spán bíða. Liðið tekur þrjá sigurleiki með sér í næsta riðil og er því í fínni stöðu um að komast á sitt fyrsta heimsmeistaramót.

„Þetta skiptir miklu máli. Holland þar t.d. að vinna fjórum leikjum meira en við til að ná okkur. Allir leikirnir í næstu undankeppni verða erfiðir, enda á móti liðum sem eru komin lengra en við. Við þurfum að spila betur en við gerðum í kvöld til að vinna þau lið,“ sagði Pedersen.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert