Úkraína verður mótherji Íslands

Ísland mætir Úkraínu tvívegis í seinni undankeppninni.
Ísland mætir Úkraínu tvívegis í seinni undankeppninni. mbl.is/Árni Sæberg

Úkraínumenn tryggðu sér í dag sæti í seinni undankeppni heimsmeistaramóts karla í körfuknattleik með sigri á Georgíu og verða þar með mótherjar Íslendinga í þeirri keppni.

Úkraínumenn léku heimaleik sinn gegn Georgíu í Ríga í Lettlandi og unnu góðan sigur, 79:66. Í hinum leik G-riðils vann Spánn stórsigur á Norður-Makedóníu, 80:44, og þar með varð endanlega ljóst að Úkraína myndi fylgja Georgíu og Spáni áfram yfir í riðil með Ítalíu, Íslandi og Hollandi en liðin sex taka með sér öll innbyrðis úrslit.

Seinni undankeppnin hefst með tveimur umferðum í ágúst og síðan eru leiknar tvær umferðir í nóvember og tvær í febrúar 2023. Að henni lokinni fara þrjú efstu lið riðilsins í lokakeppnina sem fram fer síðsumars í Japan, Indónesíu og á Filippseyjum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert