Leik frestað til morguns vegna rafmagnsleysis

Fresta þurfti leik Serbíu og Belgíu í undankeppni HM 2023 í körfuknattleik karla í kvöld eftir að rafmagnið fór af í Cair-höllinni í Nis í Serbíu þegar leikurinn var nýfarinn af stað.

Stöðva þurfti leikinn eftir aðeins þriggja mínútna leik þegar Belgía var komið í 6:3-forystu.

Leikmenn beggja liða héldu sér heitum í þeirri von að hægt væri að koma rafmagninu á en það tókst ekki.

Samkvæmt Basket News dóu áhorfendur ekki ráðalausir og reyndu í sameiningu að birta til í höllinni með því að kveikja á vasaljósunum á símum sínum.

Rafmagnsleysið varði í meira en klukkustund og var fyrst um sinn ákveðið að halda leik áfram klukkan 21.55 að staðartíma, tæplega klukkutíma eftir að leikurinn hófst.

Þegar klukkan sló 21.55 var hins vegar enn of dimmt í höllinni og ákváðu dómarar leiksins því að vísa leikmönnum til búningsherbergja sinna og reyna að ljúka leiknum á morgun.

Serbía og Belgía eru jöfn að stigum í 2. og 3. sæti A-riðils að loknum fimm leikjum, bæði með 8 stig, og því um úrslitaleik að ræða þegar kemur að því hvort liðið tekur með sér fleiri stig/sigra á lokastig undankeppni HM 2023.

mbl.is