Fjórar framlengja hjá nýliðunum

Nína Jenný Kristjánsdóttir, Arndís Þóra Þórisdóttir, Rebekka Rut Hjálmarsdóttir og …
Nína Jenný Kristjánsdóttir, Arndís Þóra Þórisdóttir, Rebekka Rut Hjálmarsdóttir og Elma Finnlaug Þorsteinsdóttir ásamt Ara Gunnarssyni þjálfara. Ljósmynd/ÍR

Körfuknattleikskonurnar Nína Jenný Kristjánsdóttir, Arndís Þóra Þórisdóttir, Rebekka Rut Hjálmarsdóttir og Elma Finnlaug Þorsteinsdóttir hafa allar komist að samkomulagi við körfuknattleiksdeild ÍR um að leika áfram með kvennaliðinu á næsta tímabili, þar sem það verður nýliði í efstu deild.

ÍR hafði í vor betur gegn 1. deildarmeisturum Ármanns, 3:2, eftir æsispennandi einvígi sem fór alla leið í oddaleik.

„ÍR-ingar þekkja Nínu vel en hún hefur verið lykilleikmaður hjá ÍR undanfarin ár. Á síðasta tímabili skilaði Nína 9,8 stigum í leik auk þess að taka 6,6 fráköst.

Arndís hefur einnig spilað með liðinu undanfarin ár og verið lykilleikmaður en glímdi við meiðsli á síðasta tímabili. Arndís skilaði 7,2 stigum tímabilið 2020-2021 auk þess að taka 7,1 frákast.

Rebekka er efnilegur leikmaður sem spilaði rúmar 18 mínútur í leik á síðasta tímabili þrátt yfir ungan aldur (18). Var hún með 4,8 stig og 3,5 fráköst í leik, þá spilaði hún kraftmikla vörn og var oft ofarlega, ef ekki efst í +/- tölfræðinni. Leikur Rebekku fór vaxandi yfir tímabilið og átti hún marga af sínum bestu leikjum í úrslitakeppninni.

Elma Finnlaug er ungur og efnilegur leikmaður (16) sem kom af miklum krafti inn í meistaraflokk á síðasta tímabili. Verður gaman að fylgjast með þessum ungu og efnilegu leikmönnum í vetur,“ sagði í tilkynningu frá körfuknattleiksdeil ÍR um leikmennina fjóra.

mbl.is