Bandarískur sigur á Kúbu

Xavier Munford sækir að körfu Kúbu í leiknum í nótt …
Xavier Munford sækir að körfu Kúbu í leiknum í nótt en hann skoraði 24 stig fyrir Bandaríkin. AFP/Yamil Lage

Bandaríkin luku í nótt fyrri hluta undankeppni heimsmeistaramóts karla í körfuknattleik með öruggum útisigri á Kúbu í Havana, 87:64.

Þetta var stærsti sigur bandaríska liðsins í riðlinum þar sem það vann fimm leiki af sex og fer yfir á seinna stig undankeppninnar ásamt Mexíkó og Púertóríkó en Kúba er úr leik.

Á seinna stiginu bætast Brasilía, Úrúgvæ og Kólumbía í hópinn. Bandaríkin og Brasilía standa best að vígi og taka með sér fimm sigra hvort lið, Úrúgvæ og Mexíkó fjóra, Púertóríkó þrjáo g Kólumbía tvo. Þrjú efstu liðin fara á HM 2023.

Engar þekktar kempur úr NBA-deildinni voru í bandaríska liðinu að þessu sinni en Xavier Munford, leikmaður Melbourne Phoenix í Ástralíu sem áður lék með Milwaukee og Memphis, var stigahæstur með 24 stig. Justin Jackson, sem lék einn leik á tíu daga samningi með Boston Celtic síðasta vetur og er nú kominn til Phoenix Suns, skoraði 14 stig.

mbl.is