Fyrsti leikur væntanlega gegn heimsmeisturunum á útivelli

Haukur Helgi Pálsson sækir að körfunni í sigurleik Íslands gegn …
Haukur Helgi Pálsson sækir að körfunni í sigurleik Íslands gegn Hollandi síðasta föstudag. mbl.is/Óttar Geirsson

Allt bendir til þess að fyrsti leikur íslenska karlalandsliðsins í körfuknattleik í seinni undankeppninni fyrir heimsmeistaramótið 2023 verði gegn heimsmeisturum Spánverja á útivelli.

Niðurröðun leikja fyrir undankeppnina liggur fyrir en þar sem einn leikur er eftir í G-riðli milli Úkraínu og Spánar, sem fer fram annað kvöld, liggur endanleg röð liðanna í þeim riðli ekki fyrir. Úkraínumenn þurfa þó að vinna Spánverja með 22 stiga mun til að spænska liðið endi ekki í efsta sætinu en það eru Spánn, Úkraína og Georgía sem fara áfram og sameinast Íslandi, Ítalíu og Hollandi í úrslitariðlinum þar sem leikið er um þrjú sæti á HM 2023.

Ísland á að leika á útivelli gegn sigurliði G-riðils miðvikudaginn 24. ágúst og sá leikur verður því væntanlega á Spáni.

Annar leikurinn verður síðan á heimavelli laugardaginn 27. ágúst og þá verður mótherjinn annaðhvort Úkraína eða Georgía.

Næsta leikjahrina er í nóvember en þá á Ísland heimaleik 11. nóvember og útileik 14. nóvember.

Undanriðlinum lýkur síðan í febrúar 2023 en þá leikur Ísland síðasta heimaleikinn 23. febrúar og síðasta útileikinn 26. febrúar.

En það er viðureign Úkraínu og Spánar annað kvöld sem ræður úrslitum um hverjir verða mótherjar Íslands á hverjum leikdaganna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert