Stórsigur Íslands á Dönum

Anna Lára Vignisdóttir átti góðan leik.
Anna Lára Vignisdóttir átti góðan leik. Ljósmynd/FIBA

Íslenska U18 ára landslið kvenna í körfubolta átti ekki í neinum vandræðum með að vinna Danmörk, 67:35, þegar liðin mættust í B-deild Evrópumótsins í kvöld.

Ísland var með 32:21 forskot í hálfleik og hélt áfram að bæta í forskotið jafnt og þétt í seinni hálfleik.

Emma Sóldís Svan Hjördísardóttir var stigahæst í íslenska liðinu með 16 stig og hún tók einnig sex fráköst og gaf sex stoðsendingar. Anna Lára Vignisdóttir bætti við 14 stigum, eins og Kristlaug Eva Wium Elíasdóttir.

Ísland leikur við Írland í lokaleik sínum á mótinu á morgun.  

mbl.is