38 ára gamli Litháinn snýr aftur

Valdas Vasylius er mættur aftur.
Valdas Vasylius er mættur aftur. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Valdas Vasylius er genginn til liðs við karlalið Grindavíkur í körfuknattleik og mun hann leika með liðinu á komandi keppnistímabili í úrvalsdeildinni, Subway-deildinni.

Þetta tilkynnti félagið á samfélagsmiðlum sínum í dag en hann þekkir vel til í Grindavík eftir að hafa leikið með liðinu tímabilið 2019-20.

Valdas, sem er 38 ára gamall Lithái, er fjölhæfur leikmaður sem er 203 sentímetrar á hæð en hann getur leikið sem bæði framherji og miðherji. 

Hann skoraði 15 stig að meðtali í leik með Grindvíkingum tímabilið 2019-20, ásamt því að taka 6,5 fráköst að meðaltali í leik.

„Valdas stóð sig mjög vel hjá Grindavík fyrir nokkrum árum og við höfum fylgst vel með honum undanfarin ár. Hann mun hjálpa okkur að auka breidd liðsins inn í teignum,“ sagði Jóhann Þór Ólafsson, þjálfari Grindavíkur.

„Valdas er einnig frábær skytta þannig að hann mun nýtast okkar liði afar vel í vetur,“ bætti þjálfarinn við.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert