Ítalskur sigur í hörkuleik

Simone Fontecchio skoraði 21 stig í kvöld.
Simone Fontecchio skoraði 21 stig í kvöld. Ljósmynd/FIBA

Simone Fontecchio fór mikinn fyrir Ítalíu þegar liðið lagði Georgíu að velli í L-riðli 2. umferðar undankeppni HM karla í körfuknattleik í Brescia á Ítalíu í kvöld en Ísland leikur í sama riðli.

Leiknum lauk með 91:84-sigri ítalska liðsins en staðan var jöfn, 82:82, þegar rúm mínúta var til leiksloka.

Fontecchio skoraði 21 stig, tók átta fráköst og gaf sex stoðsendingar og Danilo Gallinari skoraði 17 stig. Goga Bitadze var stigahæstur í liði Georgíu með 19 stig.

Með sigrinum jöfnuðu Ítalir Spánverja að stigum í efsta sæti riðilsins með 11 stig, Georgía kemur þar á eftir með 9 stig, Ísland er með 8 stig og Úkraína og Holland koma þar á eftir með 6 stig hvort.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert