„Þetta er bara draumur“

Kristófer Acox treður með látum í Ólafssal í kvöld.
Kristófer Acox treður með látum í Ólafssal í kvöld. mbl.is/Óttar Geirsson

Kristófer Acox var mjög drjúgur í sigrinum mikilvæga gegn Úkraínu á Ásvöllum í kvöld í undankeppni HM karla í körfuknattleik. 

Kristófer lék æ betur eftir því sem leið á leikinn eins og fleiri í íslenska liðinu en líkamlegur styrkur hans kom að góðum notum gegn hávöxnum Úkraínumönnum. 

„Þetta var frábært. Ég missti af fyrstu tveimur heimaleikjunum í keppninni og þetta var því fyrsti landsleikurinn minn í þessu húsi. Þetta var frábær skemmtun,“ sagði Kristófer þegar mbl.is ræddi við hann að leiknum loknum en Kristófer skoraði 14 stig, tók 3 fráköst og stal boltanum einu sinni. Hvenær gerði hann það? Jú þegar um tíu sekúndur voru eftir af framlengingunni.  

„Við höfum verið öflugir í því að vernda heimavöllinn í þessari keppni og vitum að það er mikilvægt. Maður þekkir hversu erfðir útileikirnir og ferðalögin geta verið í þessum keppnum. Við erum með flotta áhorfendur sem styðja okkur og við finnum vel fyrir því. Við erum komnir í dauðafæri fyrir framhaldið og það er bara draumur.“

Þegar Tryggvi Snær Hlinason fékk hvíld þá þurfti Kristófer að spila sem miðherji. Kostulegt var að fylgjast með því þegar Kristófer var að gæta miðherja Úkraínu sem er væntanlega um 30 cm hærri. 

„Þeir eru náttúrlega hrikalega hávaxnir þarna nokkrir. Bakverðirnir hjá þeim eru svipað háir og ég. Við vissum það svo sem og vissum að þeir eru líkamlega sterkir. Við getum ekki verið smeykir. Við erum komnir í góða stöðu og þá keppum við á móti sterkum liðum og stórum þjóðum. Við þurfum að hafa gaman að því, við gerðum vel í kvöld og sigurinn var verðskuldaður.“

Reynir að vera með ef heilsan leyfir

Kristófer var meiddur þegar Ísland mætti Hollandi hér heima en gaf ekki kost á sér þegar Ísland lék tvo leiki gegn Ítalíu í febrúar. Var þá tæpur og lokakafli Íslandsmótsins var framundan. Er Kristófer ekki tilbúinn að lofa því að hann gefi kost á sér í alla landsleiki þar til hann kemst á eftirlaunaaldur? 

„Jú ef heilsan leyfir. Þá reynir maður að vera með í öllum verkefnum. Alveg klárlega,“ sagði Kristófer og hló að spurningunni.

mbl.is