„Við megum ekki fara fram úr okkur“

Elvar Már veltir fyrir sér hvaða möguleikar séu í stöðunni …
Elvar Már veltir fyrir sér hvaða möguleikar séu í stöðunni í leiknum í kvöld. Hann getur staðið sig vel þegar spennan er mikil eins og sést hefur í síðustu landsleikjum. mbl.is/Óttar Geirsson

„Þetta var orðið hálfgert bull þarna í lokin. Maður vissi varla hvað var í gangi,“ sagði bakvörðurinn Elvar Már Friðriksson eftir spennutryllinn milli Íslands og Úkraínu í Ólafssal á Ásvöllum í kvöld þar sem Ísland hafði betur 91:88 eftir framlengdan leik. 

„Baráttan var til staðar og við hættum aldrei. Við lokuðum teignum aðeins betur í vörninni og fráköstuðum aðeins betur. Við náðum lausum boltum undir lokin og það reyndist risastórt fyrir okkur. Kristófer og Arnar komu með þvílíkan kraft inn í liðið sem gerði okkur kleift að vinna þennan leik vegna þess að við byrjuðum leikinn ekki vel og þeir komu með þvílíka orku inn. Eftir það fóru hlutirnir að ganga og þá var þetta orðið hörkuleikur,“ sagði Elvar en honum virðist líða vel í þessum spennandi landsleikjum. Elvar skoraði 27 stig í kvöld og lék með bros á vör. Spennan var ekki að þvælast fyrir honum sem sést best á því að hann hitti úr 10 af 11 vítaskotum sínum. 

„Maður spilar bara afslappaður. Ég er með svo góðum vinum hérna og reyni að hafa gaman að þessu. Þetta er það skemmtilegasta sem ég geri. Þetta er bara leikur og ef manni þætti þetta leiðinlegt þá ætti maður ekki heima í þessu. Þegar ég nýt þess að spila þá finnst mér ganga betur hjá mér.“

Spurður um hvernig tilhugsun það sé að Ísland eigi enn möguleika á því að komast í lokakeppni HM á þessu stigi í undankeppninni segist Elvar forðast að velta því fyrir sér. 

„Ég hef ekki hugsað út í það heldur hugsað um næsta landsleik. Við megum ekki fara fram úr okkur. Við þurfum að hugsa um næsta leik og þá geta góðir hlutir gerst. Við höfum verið í alls kyns leikjum undanfarin ár í forkeppnum og undankeppnum. Maður hefur sett það fyrir aftan sig og bara spilað. Úrslitin hafa oft verið okkur í hag undanfarið. Við þurfum að hugsa um næsta leik gegn Georgíu. Ef við vinnum hann þá getur ýmislegt gerst,“ sagði Elvar Már Friðriksson þegar mbl.is náði tali af honum á Ásvöllum. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert