Spánn mætir Frakklandi í úrslitum

Lorenzo Brown fór á kostum fyrir Spánverja.
Lorenzo Brown fór á kostum fyrir Spánverja. Ljósmynd/FIBA

Lorenzo Brown átti stórleik fyrir Spán þegar liðið vann nauman sigur gegn Þýskalandi í undanúrslitum Evrópumóts karla í körfuknattleik í Berlín í Þýskalandi í dag.

Leiknum lauk með 96:91-sigri Spánverja en Brown skoraði 29 stig, tók tvö fráköst og gaf sex stoðsendingar í leiknum.

Þjóðverjar voru sterkari aðilinn framan af og þeir leiddu með sex stigum, 71:65, fyrir fjórða leikhluta. Spánverjar voru hins vegar sterkari undir restina og fögnuðu sigri.

Willy Hernangomez skoraði 16 stig fyrir Spánverja en Dennis Schröder var atkvæðamestur í þýska liðinu með 30 stig og átta stoðsendingar.

Spánn mætir Frakklandi í úrslitaleik í Berlín á sunnudag á meðan Þýskaland mætir Póllandi í leik um 3. sætið.

mbl.is
Loka