Þetta var veisla fyrir fjölmiðla

„Við lögðum allt í sölurnar til þess að vinna, því við vildum auðvitað ekki tapa fyrir þeim,“ sagði Brynjar Þór Björnsson, fyrrverandi fyrirliði karlaliðs KR í körfuknattleik, í Dagmálum, frétta- og menningarlífsþætti Morgunblaðsins.

Brynjar Þór, sem er 34 ára gamall, lagði körfuboltaskóna á hilluna á dögunum en hann varð átta sinnum Íslandsmeistari með uppeldisfélagi sínu KR og þrívegis bikarmeistari.

Tímabilið 2020-2021 mætti KR liði Vals í 8-liða úrslitum Íslandsmótsins en þeir Jón Arnór Stefánsson, Kristófer Acox og Pavel Ermolinskij höfðu þá allir skipt úr KR yfir í Val, sem og þjálfarinn Finnur Freyr Stefánsson.

„Þetta var ótrúleg sería og allt umtalið í kringum hana líka,“ sagði Brynjar Þór en KR vann einvígið 3:2 eftir oddaleik á Hlíðarenda.

„Það er alltaf erfitt að sjá á eftir frábærum gaurum og það kristallaðist í umræðunni í kringum einvígið.

Þetta var veisla fyrir fjölmiðla, veisla fyrir stuðningsmennina og veisla fyrir okkur leikmennina,“ sagði Brynjar meðal annars.

Viðtalið við Brynjar Þór í heild sinni má nálgast með því að smella hér.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert