„Afskaplega tilbúnar og æstar í að tímabilið byrji“

Lovísa Björt Henningsdóttir í leik með Haukum gegn Njarðvík á …
Lovísa Björt Henningsdóttir í leik með Haukum gegn Njarðvík á síðasta tímabili. mbl.is/Óttar Geirsson

Lovísa Björt Henningsdóttir, fyrirliði kvennaliðs Hauka í körfuknattleik, segir liðið staðráðið í að vinna Íslandsmeistaratitilinn á komandi tímabili eftir vonbrigðin sem fylgdu því að tapa í oddaleik gegn Njarðvík í úrslitaeinvíginu um titilinn á síðasta tímabili.

„Tímabilið leggst bara ótrúlega vel í okkur. Tímabilið í fyrra var langt og gott en endaði ekki eins og við vildum að það myndi enda.

Við erum held ég afskaplega tilbúnar og æstar í að tímabilið byrji og það er vonandi að okkur gangi aðeins betur núna,“ sagði Lovísa Björt í samtali við mbl.is á kynningarfundi úrvalsdeildar kvenna, Subway-deildarinnar, í síðustu viku.

Í 2:3-tapinu fyrir Njarðvík í úrslitarimmunni unnust allir fimm leikirnir á útivelli.

„Það var mjög svo skrítið. Á síðasta tímabili unnum við bara á útivelli og Njarðvík vann bara á útivelli þannig að það var eitthvað mjög skrítið við þetta. Kannski að við skiptum á heimavelli núna í ár,“ sagði hún glettin.

Gaman að aðrir hafi trú á okkur

Haukum var á fundinum spáð efsta sæti deildarinnar. Spurð hvað henni þótti um spána sagði Lovísa Björt:

„Spá er bara spá. Ég held að eina pressan sem skiptir máli sé pressan sem við leikmennirnir og þjálfararnir setjum á okkur sjálf.

Við vitum hvað við getum en það er auðvitað gaman að sjá hversu mikla trú aðrir hafa á okkur líka, þeir vita að við erum hungraðar í að vinna núna í ár.

Það eina sem skiptir okkur máli er hvernig við komum inn í tímabilið og hvernig við mætum til leiks, með rétt stillta pressu á okkur sjálfar.“

Deildarmeistaratitillinn væri bónus

Hún sagði Hauka ávallt stefna að því að vinna til allra titla en að Íslandsmeistaratitillinn og bikarmeistaratitillinn, þar sem Hafnarfjarðarliðið á titil að verja, séu liðinu mikilvægastir.

„Auðvitað er Íslandsmeistaratitilinn sá stærsti og við værum að sjálfsögðu til í að halda okkar titli í bikarnum þar sem við erum búin að vinna bikarmeistaratitilinn tvisvar í röð. Deildarmeistaratitilinn ætla ég að segja að sé bónus.

Auðvitað er það eitthvað sem við stefnum að, við viljum vinna alla titlana og allir titlar eru mikilvægir. Við stefnum að því að vera á toppnum í deildinni og það að verða deildarmeistarar er klárlega markmiðið okkar.“

Missir af byrjun tímabilsins

Spurð út í stöðuna á leikmannahópi Hauka í upphafi tímabils sagði Lovísa Björt nokkuð vera um meiðsli.

„Því miður erum við einmitt frekar meiddar eins og er, ég og Helena [Sverrisdóttir] þar á meðal. Helena fór í aðgerð á síðasta tímabili en er búin að vera smá hæg á leiðinni til baka og ég fór loksins í aðgerð eftir síðasta tímabil og mun ekki taka þátt í byrjun tímabilsins.

En ég held og vona að við toppum á réttum tíma og að við komum allar heilar inn seinnipartinn. Til að byrja með er ég bara spennt að sjá yngri stelpurnar stíga upp.“

Haukar hefja leik í deildinni gegn nýliðum ÍR í Ólafssal á Ásvöllum í kvöld.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert