Kveðst hafa misst 45 kg

James Harden í leik með Philadelphia 76ers á síðasta tímabili.
James Harden í leik með Philadelphia 76ers á síðasta tímabili. AFP/Mitchell Leff

James Harden, leikmaður Philadelphia 76ers í NBA-deildinni í körfuknattleik, segist hafa nýtt sumarið í að létta sig og styrkja duglega fyrir átökin á komandi tímabili.

Harden skipti frá Brooklyn Nets yfir til Philadelphia á miðju síðasta tímabili og fóru nokkrir leikmenn Philadelphia um leið til Brooklyn.

Á blaðamannafundi í gær ræddi hann um tímabilið fram undan, sem hefst þann 18. október næstkomandi, og minntist Harden við það tækifæri á að hann hafi verið duglegur við að taka mataræði sitt í gegn og farið eftir strangri æfingaáætlun.

„Ég held að þetta hafi fyrst og fremst verið mataræðið, almennileg hvíld og svo að styrkja vöðvana, auka vöðvamassann, sem ég hef alltaf búið yfir.

Undanfarið eitt og hálft ár hef ég ekki verið í mínu besta formi til þess að vera unnt að leggja jafn mikið af mörkum og ég er vanur.

Þetta sumar fór í risastórt verkefni og að hlaupa upp hæðir. Þá voru líka lyftingarnar mikilvægar,“ sagði Harden.

Þá var hann spurður að því hve mörg kíló hann hafi misst og svaraði Harden einfaldlega: „45 kg. Tístu því.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert