Segist hafa orðið af 100 milljónum dala

Kyrie Irving í leik með Brooklyn Nets á síðasta tímabili.
Kyrie Irving í leik með Brooklyn Nets á síðasta tímabili. AFP

Kyrie Irving, ein af stjörnum Brooklyn Nets í NBA-deildinni í körfuknattleik, segist hafa orðið af rúmlega 100 milljóna dala samningi með því að neita að láta bólusetja sig við kórónuveirunni.

Irving fékk ekki að spila heimaleiki með Brooklyn vegna strangra reglna um bólusetningar í New York-ríki auk þess sem þátttaka hans í útileikjum valt á reglum annarra ríkja.

„Ég lét af störfum eftir fjögurra ára samning upp á 100 og eitthvað milljónir dala með því að ákveða að vera ekki bólusettur, það var ákvörðunin sem ég tók,“ sagði Irving.

„Að fá þennan samning eður ei, að þiggja bólusetningu eða vera óbólusettur þýddi að það var óvissa um framtíð manns, hvort maður yrði áfram í deildinni, hvort maður yrði áfram hjá þessu liði.

Ég þurfti að horfast í augu við raunverulegan möguleika á því að missa vinnuna mína vegna þessarar ákvörðunar.“

Deila um afarkosti

Irving kvaðst hafa búist við því að skrifa undir nýjan samning á síðasta ári en að ekkert hafi orðið af því vegna þess að hann hafi kosið að þiggja ekki bólusetningu við veirunni. Honum hafi verið settir afarkostir og viðræður um nýjan samning því dottið upp fyrir.

Sean Marks, framkvæmdastjóri Brooklyn Nets, segir það þó ekki rétt hjá Irving að honum hafi verið settir afarkostir vegna bólusetningar.

Þegar hertar reglur í New York-ríki voru settar á fót hafi hins vegar komið babb í bátinn í viðræðunum þar sem taka þurfti tillit til þess að ein stærsta stjarna liðsins gæti ekki tekið þátt í einum einasta heimaleik.

„Engum voru settir afarkostir um að þiggja bólusetningu, það er persónuleg ákvörðun hvers og eins. Það var ekkert „hér er samningurinn, en nú höfum við dregið hann til baka“. Það gerðist aldrei,“ sagði Marks.

mbl.is