Elvar drjúgur í öruggum sigri

Elvar Már Friðriksson leikur með litháíska meistaraliðinu Rytas.
Elvar Már Friðriksson leikur með litháíska meistaraliðinu Rytas. mbl.is/Óttar Geirsson

Landsliðsmaðurinn Elvar Már Friðriksson nýtti sinn leiktíma vel þegar meistaraliðið Rytas vann öruggan sigur á Neptunas, 93:67, í litáísku A-deildinni í körfubolta í dag.

Elvar lék í 19 mínútur en leiktímanum var skipt vel á allan hópinn og enginn spilaði í meira en 22 mínútur. Stigin dreifðust því vel en Elvar var þriðji hæstur með 10 stig og auk þess átti hann flestar stoðsendingar, sex talsins, og tók auk þess fjögur fráköst.

Rytas hefur unnið tvo fyrstu leiki sína í deildinni og býr sig nú undir stórleik í Meistaradeild Evrópu næsta miðvikudag þegar það fer til Tenerife og leikur þar við heimamenn.

mbl.is