Jón í Bandaríkjunum í vetur?

Jón Axel Guðmundsson í landsleik Íslands og Úkraínu í ágúst.
Jón Axel Guðmundsson í landsleik Íslands og Úkraínu í ágúst. mbl.is/Óttar Geirsson

Jón Axel Guðmundsson, landsliðsmaður í körfuknattleik, skoðar þann möguleika að spila í bandarísku G-deildinni í vetur en liðin sem leika þar eru nokkurs konar varalið NBA-félaganna.

Jón æfði í vikutíma með meistaraliðinu Golden State Warriors á dögunum og staðfesti við mbl.is að varalið þess, Santa Cruz Warriors, væri eitt þeirra liða sem kæmu til greina.

Hann væri með tilboð þaðan, sem og frá varaliðum Miami Heat, Brooklyn Nets, Milwaukee Bucks og Chicago Bulls.

„Ég er að velta þessu fyrir mér þessa dagana, en vil líka bíða aðeins og sjá hvort eitthvað spennandi kemur frá liðum í Evrópu," sagði Jón Axel við mbl.is en á síðasta tímabili lék hann með Fortitudo Bologna á Ítalíu fram í janúar og síðan með Crailsheim Merlins í Þýskalandi til vorsins.

Sioux Falls Skyforce er varalið Miami, Long Island Nets er varalið Brooklyn Nets, Wisconsin Herd er varalið Milwaukee Bucks og Windy City Bulls er varalið Chicago Bulls.

Margir þekktir NBA-leikmenn hafa spilað í G-deildinni (sem áður hét D-deildin) um lengri eða skemmri tíma. Hún er skipuð 30 liðum, 28 frá Bandaríkjunum, einu frá Kanada og einu frá Mexíkó.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert