„Aðalmarkmiðið að verja þann stóra“

Kristófer Acox treður í leik Vals gegn Stjörnunni í Meistarakeppni …
Kristófer Acox treður í leik Vals gegn Stjörnunni í Meistarakeppni KKÍ um síðustu helgi. mbl.is/Óttar Geirsson

Kristófer Acox, fyrirliði Íslandsmeistara Vals, segir alla sem að liðinu koma vera staðráðna í að verja Íslandsmeistaratitilinn næstkomandi vor.

„Tímabilið leggst bara vel í okkur held ég. Aðalmarkmiðið er náttúrlega að verja þann stóra. Við töluðum um það eftir síðasta tímabil að okkur langar að halda áfram að móta þessa sigurmenningu á Hlíðarenda, fyrir körfuknattleiksdeildina karla megin.

Það hefur verið lagt mikið púður í það í vetur en þetta er langt tímabil og deildin auðvitað sterk þannig að það verður gríðarlega erfitt verkefni. En við förum fullir sjálfstrausts inn í tímabilið,“ sagði Kristófer í samtali við mbl.is á kynningarfundi KKÍ í síðustu viku.

Á fundinum var Val spáð 4. sæti í úrvalsdeild karla, Subway-deildinni, af félögunum og 3. sæti af fjölmiðlum. Hann sagði Valsmenn ekki mikið spá í spám.

„Nei, nei, er það ekki alltaf sama svarið? Að það er kannski svo sem ekkert að marka þessa spá. Ég held að okkur hafi verið spáð eitthvað svipað í fyrra og við enduðum á því að taka titilinn.

En úrslitakeppnin er náttúrlega bara nýtt mót þannig séð, fyrir öll lið, og það á ennþá eftir að sjá hvernig lið verða og hvernig nýir leikmenn, sérstaklega erlendir leikmenn, muni passa inn í liðin.

Eins og staðan er í dag eru kannski ákveðin lið sem eru vel mönnuð á blaði, kannski betur en önnur, en maður verður að sjá hvernig spilast úr því þegar boltinn er byrjaður að rúlla.“

Stefnum á fyrsta sætið í deildinni

Spurður hvort Valur leggi upp með að verða deildarmeistari á tímabilinu sagði hann það vitanlega best fyrir úrslitakeppnina.

„Já algjörlega. Ég held að númer eitt, tvö og þrjú sé að koma okkur inn í úrslitakeppnina. Ég held að það sé að sjálfsögðu markmið allra liða. Við stefnum auðvitað að því að ná góðri stöðu og fá þennan heimavallarrétt.

Eins og sást í úrslitarimmunni síðastliðið vor var heimavöllurinn gríðarlega mikilvægur. Við stefnum auðvitað að því að enda í efri hluta deildarinnar og að sjálfsögðu stefnir maður á fyrsta sætið í deildinni.

Það væri náttúrlega frábært að vera með öruggt heimavallarpláss alla úrslitakeppnina. Það verður að koma í ljós hvernig það endar en það er markmiðið,“ sagði Kristófer að lokum í samtali við mbl.is.

Valur tekur á móti Stjörnunni í 1. umferð Subway-deildarinnar annað kvöld, en þessi lið mættust einnig í Meistarakeppni KKÍ síðastliðinn sunnudag, þar sem Valur vann nauman sigur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert