Áskorun að þjálfa sér eldri menn

Þjálfarinn Ísak Máni Wíum og leikmaðurinn Ragnar Örn Bragason í …
Þjálfarinn Ísak Máni Wíum og leikmaðurinn Ragnar Örn Bragason í nýrri keppnishöll ÍR. Ljósmynd/ÍR

Ísak Máni Wíum, þjálfari karlaliðs ÍR í körfuknattleik, telur leikmannahópinn vera sterkari á komandi tímabili en á því síðasta og segir liðið stefna ótrautt í úrslitakeppni þrátt fyrir spár um fall í vor.

„Tímabilið leggst mjög vel í mig. Mér líst vel á hópinn. Ég held að við séum með betra lið en í fyrra þannig að ég er mjög spenntur,“ sagði Ísak í samtali við mbl.is eftir kynningarfund KKÍ í Laugardalshöll í síðustu viku.

Á fundinum var ÍR spáð falli úr úrvalsdeild karla, Subway-deildinni, af bæði félögunum og fjölmiðlum. Spurður hvort það hafi komið honum á óvart sagði Ísak:

„Kannski bæði og. Ég bjóst alveg við því. Liðin sem eru að koma upp eru talsvert sterkari en þau sem fóru niður, ég held að það sé alveg á hreinu.

Við í ÍR höfum svo verið í 9. til 10. sæti mörg undanfarin ár, fyrir utan eitt. Þannig að það kemur mér ekki beint á óvart en við stefnum á úrslitakeppnina, það er alveg augljóst markmið.“

Sterkur ÍR-kjarni

Hann hefur fulla trú á því að það markmið náist hjá ÍR-liði sem leikur í nýrri og glæsilegri keppnishöll á komandi tímabili og inniheldur um leið heimamenn að stórum hluta.

„Já það er bara ágætis stemning og langstærstur hluti liðsins eru uppaldir ÍR-ingar. Við fáum inn Hákon [Örn Hjálmarsson] og Ragga [Ragnar Örn Bragason] og skiptum einhverjum út.

Það er sterkur ÍR-kjarni hérna og mikil stemning í kringum það. En ég veit að það eru líka gerðar væntingar til þeirra þar sem þetta eru heimamenn.

Við setjum raunhæf markmið um að komast í úrslitakeppnina og eins og við höfum séð undanfarin ár þá vitum við aldrei hvað gerist eftir það,“ sagði Ísak.

Vann mér inn ákveðna virðingu í fyrra

Hann tók við starfi aðalþjálfara í sumar eftir að hafa verið aðstoðarþjálfari Friðriks Inga Rúnarssonar á síðasta tímabili. Ísak er yngsti þjálfarinn í deildinni, aðeins 23 ára. Hvernig er það fyrir þetta ungan mann að þjálfa leikmenn sem eru í sumum tilvikum talsvert eldri en hann sjálfur?

„Það er bara áskorun, ekki spurning. Ég held að ég sé búinn að undirbúa mig nokkuð vel og ég er líka með frábæran aðstoðarþjálfara í honum Baldri [Má Stefánssyni]. Við vinnum þetta svolítið mikið saman.

En ég held að ég hafi líka sýnt það í fyrra, þar sem ég vann náið með Frikka, að ég hafi unnið mér inn ákveðna virðingu og ég held að það haldi bara áfram,“ sagði Ísak að lokum í samtali við mbl.is.

ÍR tekur á móti Njarðvík í 1. umferð Subway-deildarinnar annað kvöld.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert