Ekkert víst að þetta klikki

Sigurður Gunnar Þorsteinsson í kröppum dansi undir körfunni í úrslitaeinvígi …
Sigurður Gunnar Þorsteinsson í kröppum dansi undir körfunni í úrslitaeinvígi Tindastóls og Vals á síðasta tímabili. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Þetta er bara forvitnilegt. Þetta var góður endir á síðasta tímabili. Það er náttúrlega nýr maður í brúnni og það eru nýir hlutir að gerast,“ sagði Sigurður Gunnar Þorsteinsson, miðherji Tindastóls, í samtali við mbl.is á kynningarfundi KKÍ í síðustu viku.

„Ég held að þetta verði örugglega aðeins stirt til að byrja með. Maður er spenntur og það er alltaf gaman að byrja nýtt tímabil. Svo kemur í ljós hvernig spilast úr því,“ bætti hann við.

Á fundinum var Tindastóli, sem tapaði úrslitaeinvíginu um Íslandsmeistaratitilinn í oddaleik gegn Val á síðasta tímabili, spáð öðru sæti úrvalsdeildar karla, Subway-deildarinnar, af félögunum í deildinni.

Gangi spá fjölmiðla eftir hafna Stólarnir hins vegar í efsta sæti.

„Þetta er bara eins og veðurspáin sko. Maður hefur hana í huga en tekur kannski ekki alveg mark á henni. En fólk trúir á okkur, að við getum gert stóra hluti. Við trúum því líka en við þurfum held ég alveg einhvern tíma.

Við erum búnir að æfa í mánuð undir nýjum þjálfara og það er verið að breyta hlutum, gera þá öðruvísi, og það tekur bara tíma. Svo er spurning hvernig það gengur. Það er ekkert víst að það klikki,“ sagði hinn 34 ára gamli Sigurður Gunnar.

Ennþá að læra eitthvað nýtt eftir 20 ár

Spurður nánar út í nýja þjálfarann, Króatann Vladimir Anzulovic, sagði hann: „Hann er mjög ástríðufullur en það er í báðar áttir.

Við höfum verið að æfa allir saman í um mánuð núna og hann er að koma hugmyndafræðinni sinni vel til skila. Ég hef verið í þessu í einhver 20 ár en ég er ennþá að læra eitthvað nýtt, nýja hluti.“

En getur Tindastóll farið skrefi lengra en á síðasta tímabili og landað loks Íslandsmeistaratitlinum í fyrsta sinn í sögu félagsins?

„Við erum alveg með mannskap í það. Við erum með mjög svipaðan mannskap og bættum við útlendingi þannig að það er alveg möguleiki á því. En hlutirnir þurfa líka að ganga upp.

Þeir gerðu það ekki framan af síðasta tímabili en svo small þetta í gang. Það er alveg möguleiki en hlutirnir þurfa líka að ganga rétt,“ sagði Sigurður Gunnar að lokum í samtali við mbl.is.

Tindastóll heimsækir Keflavík í stórleik 1. umferðar Subway-deildarinnar annað kvöld.

mbl.is