Dæmdur ofbeldismaður í liði ÍR

Tylan Birts í leik með liði Barry-háskólans í Bandaríkjunum.
Tylan Birts í leik með liði Barry-háskólans í Bandaríkjunum. Ljósmynd/Barry-háskólinn

Tylan Birts, bandarískur leikmaður karlaliðs ÍR í körfuknattleik, var árið 2016 ákærður fyrir nauðgun en játaði ári síðar á sig líkamsárás.

Birts var í aðalhlutverki hjá ÍR sem vann óvæntan sigur á ríkjandi deildarmeisturum Njarðvíkur í 1. umferð úrvalsdeildar karla, í Breiðholtinu í gærkvöld. Hann skoraði þá 23 stig og tók 14 fráköst.

Vísir vekur athygli á því í dag að Birts er með ofbeldisdóm á bakinu í heimalandinu.

Er hann lék með Lindenwood í háskólaboltanum vestanhafs var Birts, sem þá var 19 ára gamall, einn þriggja leikmanna liðsins sem var ákærður fyrir að nauðga konu árið 2016.

Allir þrír voru settir til hliðar af Lindenwood-háskólanum í Missouri-fylki í kjölfarið. Birts skipti svo yfir til Barry-háskólans í Flórída-fylki.

Birts hafi villt á sér heimildir

Samkvæmt ákærunni var liðsfélagi Birts, Ermias Tesfia Nega, sagður hafa haft samræði við konuna með samþykki hennar en hafi svo yfirgefið herbergið þar sem samræðið fór fram og tjáð Birts í kjölfarið að hún væri „reiðubúin“ til samræðis.

Birts og þriðji liðsfélaginn, Bradley Newman Jr., hafi því næst farið inn í herbergið þar sem Birts er sagður hafa haft samræði við konuna, sem hafi haldið að um Nega hafi verið að ræða.

Newman Jr. hafi samkvæmt ákærunni fylgst með samræðinu og að konan hafi svo áttað sig á að Birts hafi verið að villa á sér heimildir er hún kveikti ljósið í herberginu, en hún stóð í þeirri trú að hún væri að hafa samræði við Nega að nýju.

Árið 2017 samdi Birts um að játa á sig líkamsárás en var ekki dæmdur fyrir nauðgun. Hann hlaut tveggja ára skilorðsbundinn dóm sinnti 50 tíma samfélagsþjónustu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert