Naumur sigur Keflavíkur í spennuleik

Taiwo Badmus hjá Tindastóli og Keflvíkingurinn Eric Ayala eigast við …
Taiwo Badmus hjá Tindastóli og Keflvíkingurinn Eric Ayala eigast við í kvöld. mbl.is/Skúli

Meistaraefni Keflavíkur tóku á móti Tindastól í 1. umferð Subway-deildar karla í körfubolta í kvöld.

Fyrir mót var þessum tveimur liðum spáð toppsætunum og því ljóst að um hörkuleik yrði að ræða.

Þau fyrirheit sviku liðin ekki og úr varð viðureign sem réðst á síðustu sekúndum leiksins þegar Taiwo Badmus klikkaði á þriggja stiga skoti og Keflvíkingar fögnuðu 82:80 sigri. 

Gestirnir úr Skagafirðinum byrjuðu leikinn töluvert betur og voru í fyrri hálfleik illviðráðanlegir. Hálfleiksræða Hjalta Vilhjálmssonar hjá Keflavík hefur eflaust snúist um það að herða varnarleik sinna manna eftir að hafa fengið á sig 50 stig í þeim fyrri.

Sú ræða fór vel í menn og héldu þeir gestunum í 30 stigum í seinni hálfleik. Vendipunktur í leiknum varð þegar 3 mínútur voru komnar í seinni hálfleik þegar Armadis Drungilas gerði sig sekan um slæleg vinnubrögð sem endaði með því að hann var réttilega rekinn í sturtu.

Þetta dró gríðarlega úr bæði sóknar- og varnargetu Tindastólsmanna, sem voru þó ólseigir allt til loka leiks. En það er ekkert leyndarmál að hér fara í það minnstu best mönnuðu lið deildarinnar. Tindastóll sem fór í úrslit í fyrra þétti raðirnar með einmitt Drungilas. Einnig kom heim frá Þór Akureyri, Ragnar Ágústsson, sem er feiknar lunkinn leikmaður og kemur til með að reynast þeim Skagfirðingum vel.  Af leikmönnum sem áttu inni þá var einmitt Taiwo Badmus langt frá sínu besta en hann var víst tæpur fyrir leik vegna meiðsla og ákvað í upphitun að taka þátt í leiknum. 

Að auki spilaði Sigurður Þorsteinsson og Zoran Vrkic ekki mínútu þetta kvöldið, en þeir hvíldu vegna meiðsla. Einhvern veginn átti maður von á Keflvíkingum sterkari en þeir hins vegar eiga einnig nóg inni og David Okeke, þeirra stóri og stæðilegi miðvörður, er enn að koma sér í fullan gír eftir hásinaslit í fyrra.

Keflavík 82:80 Tindastóll opna loka
99. mín. skorar
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert