Keflavík með fullt hús stiga – ótrúleg frammistaða Raquel

Raquel Laniero skoraði 34 stig fyrir Njarðvík í kvöld.
Raquel Laniero skoraði 34 stig fyrir Njarðvík í kvöld. mbl.is/Kristinn Magnússon

Keflavík er áfram á toppi úrvalsdeildar kvenna í körfuknattleik, Subway-deildarinnar, eftir öruggan sigur á nýliðum ÍR í kvöld. Íslandsmeistarar Njarðvíkur unnu á sama tíma sterkan sigur á Breiðabliki.

Sigur Keflavíkur var aldrei í hættu enda staðan í leikhléi 47:28 og lokatölur 72:40.

Keflvíkingar skiptu stigunum systurlega á milli sín þar sem Anna Ingunn Svansdóttir skoraði 16 stig, Daniela Morello 14 ásamt því að taka níu fráköst og Eygló Kristín Óskarsdóttir skoraði 12 stig ásamt því að taka fimm fráköst.

Stigahæstar hjá ÍR voru Margrét Blöndal og Greeta Uprus, báðar með 8 stig, auk þess sem Uprus tók sjö fráköst.

Keflavík er því með fullt hús stiga á toppi deildarinnar á meðan ÍR er á botninum án stiga.

Njarðvík fékk Breiðablik í heimsókn og hafði að lokum betur, 94:79, eftir að leikurinn hafði verið jafn og æsispennandi nánast allan tímann.

Það var aðeins þegar um þrjár mínútur voru eftir af fjórða og síðasta leikhluta að Njarðvík sigldi almennilega fram úr og vann að lokum góðan 15 stiga sigur.

Raquel Laniero átti magnaðan leik í liði Njarðvíkur er hún skoraði 34 stig, tók sex fráköst og gaf fimm stoðsendingar.

Liðsfélagi hennar, Aliyah Collier, lék sömuleiðis frábærlega og skoraði 16 stig ásamt því að taka 21 frákast.

Stigahæst í liði Breiðabliks var Sanja Orozovic með 21 stig auk þess sem hún tók fimm fráköst.

Njarðvík er eftir sigurinn í öðru sæti deildarinnar, að minnsta kosti um stundarsakir, með 8 stig. Breiðablik er í sjötta sæti með 2 stig.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert