Keflavík vann Suðurnesjaslaginn

Raquel Laneiro úr Njarðvík með boltann í kvöld.
Raquel Laneiro úr Njarðvík með boltann í kvöld. mbl.is/Skúli

Slagurinn um Reykjanesbæ er iðulega gerður upp á milli körfuknattleiksliða bæjarins. Í kvöld léku kvennalið bæjarins í úrvalsdeildinni og eftir hreint út sagt fjörugan leik var það Keflavík sem fór með sigurinn mikilvæga af hólmi og sigraði 80:73.

Keflavík leiddi með 12 stigum í hálfleik en Íslandsmeistarar Njarðvíkur náðu að koma sér aftur inn í leikinn en urðu að lúta í lægra haldi eftir harðan endasprett.

Liðin buðu bæði upp á hreint út sagt stórkostlegan körfuknattleik þetta kvöldið og það er óhætt að segja að stuðningsmenn liðanna hafi fengið allt það skemmtanagildi sem hægt er að fá út úr slíkum leik. Það eina sem skyggði í raun á frábæran körfuknattleik var frammistaða þeirra gráklæddu, en þeir geta jú líka átt sína slæmu leiki eins og leikmenn. Keflavík mætti til leiks ósigrað í deildinni og þrátt fyrir að fá 5 stig í andlitið á fyrstu mínútu leiksins snéru þær blaðinu við og skoruðu næstu 15 stigin.

Sjálfstraustið í liðinu var nánast áþreifanlegt og þær spiluðu gríðarlega þéttan og fastan varnarleik sem Njarðvík átti í mesta basli með. Í seinni hálfleik bitu Íslandsmeistarar Njarðvíkur í skjaldarrendur og fékk Keflavík þá að smakka aðeins á eigin meðali. Njarðvík hóf að spila töluvert betri varnarleik en í þeim fyrri og nánast allt fram til leiksloka var aldrei meiri en 2-4 stiga munur.

Það var svo 5 mínútum fyrir leikslok sem Njarðvík varð fyrir blóðtöku þegar þeirra besti leikmaður, Allyah Collier fékk sína fimmtu villu. Strangur dómur vildu margir meina. Njarðvík var í basli næstu mínútur með að finna nýtt auðkenni á sinn leik og þá sérstaklega sóknarlega. Keflavík gekk á lagið og kom sér fljótlega í 6 stiga forystu og það bil náði Njarðvík ekki að brúa þrátt fyrir hetjulega tilraun.

Það er alveg hægt að segja að Keflavíkurkonur hafi verðskuldaðan sigurinn. Þær spiluðu feykilega vel megnið af kvöldinu en sem fyrr segir sýndi Njarðvík gríðarlegan karakter í því að koma sér aftur inn í leikinn og gera atlögu að sigrinum. Vendipunktur leiksins var þegar Allyah Collier fékk sína fimmtu villu í leiknum. Um það voru þjálfararnir báðir og undirritaður sammála. Eftir þetta undirhandarhögg átti Njarðvík í raun aldrei möguleika og Keflavík fagnaði sigrinum vel eftir að Anna Ingunn Svansdóttir ísaði leikinn með þristi á lokaflauti kvöldsins.

Gangur leiksins:: 5:5, 5:13, 10:15, 15:21, 19:25, 21:30, 25:38, 32:44, 34:48, 43:48, 52:55, 56:59, 58:63, 66:66, 68:72, 73:80.

Njarðvík: Raquel De Lima Viegas Laneiro 25, Bríet Sif Hinriksdóttir 17/4 fráköst, Aliyah A'taeya Collier 16/11 fráköst/5 stoðsendingar, Erna Hákonardóttir 5/6 fráköst, Kamilla Sól Viktorsdóttir 4, Lavinia Joao Gomes Da Silva 4, Isabella Ósk Sigurðardóttir 2/10 fráköst.

Fráköst: 25 í vörn, 11 í sókn.

Keflavík: Daniela Wallen Morillo 23/8 fráköst/5 stoðsendingar/6 stolnir, Anna Ingunn Svansdóttir 18/4 fráköst, Karina Denislavova Konstantinova 18/7 fráköst/6 stoðsendingar, Agnes María Svansdóttir 13, Eygló Kristín Óskarsdóttir 5/10 fráköst, Katla Rún Garðarsdóttir 3.

Fráköst: 29 í vörn, 3 í sókn.

Dómarar: Davíð Kristján Hreiðarsson, Bjarni Hlíðkvist Kristmarsson, Sigurbaldur Frimannsson.

Áhorfendur: 169

Mbl.is var í Ljónagryfjunni og færði ykkur það helsta í beinni textalýsingu.

Lýsing uppfærist sjálfkrafa

Allar lýsingar í beinni

Njarðvík 73:80 Keflavík opna loka
99. mín. skorar
mbl.is