Lygilegar frammistöður Bookers og Tatums

Devin Booker átti ótrúlegan leik fyrir Phoenix Suns.
Devin Booker átti ótrúlegan leik fyrir Phoenix Suns. AFP/Christian Petersen

Óhætt er að segja að Devin Booker hafi farið á kostum í liði Phoenix Suns þegar það bar sigurorð af Chicago Bulls, 132:113, í NBA-deildinni í körfuknattleik í nótt. Sömu sögu er að segja af Jayson Tatum hjá Boston Celtics.

Booker skoraði hvorki meira né minna en 51 stig á 31 mínútu og tók einnig fjögur fráköst og gaf sex stoðsendingar.

Skotnýting Bookers var með allra besta móti þar sem hann skoraði úr 20 af 25 skotum sínum utan af velli, sem er 80 prósent nýting. Þar af skoraði hann úr sex af sjö þriggja stiga skotum sínum. Auk þess setti Booker niður fimm af sex vítaskotum.

Frammistaða hans varpaði aðeins skugga á frábæra frammistöðu liðsfélaga Bookers, Deandre Ayton, sem skoraði 30 stig og tók 14 fráköst.

Hjá Chicago var DeMar DeRozan stigahæstur með 29 stig og tók hann sjö fráköst að auki.

Jayson Tatum gaf Booker ekkert eftir þegar lið hans Boston vann sterkan 134:121-sigur á Miami Heat.

Tatum skoraði 49 stig og tók 11 fráköst. Skotnýting hans var ekki jafn góð og hjá Booker en frammistaðan ekkert minna mögnuð fyrir því.

Milwaukee Bucks vann svo nauman 109:103-sigur á New York Knicks.

Þar var Grikkinn Giannis Antetokounmpo í essinu sínu sem endranær er hann skoraði 37 stig, tók 13 fráköst og gaf sjö stoðsendingar fyrir Milwaukee.

Alls fóru 13 leikir fram í NBA-deildinni í nótt.

Öll úrslit næturinnar:

Phoenix – Chicago 132:113

Boston – Miami 134:121

New York – Milwaukee 103:109

Cleveland – Philadelphia 113:85

Orlando – Atlanta 108:125

Brooklyn – Washington 113:107

Minnesota – Memphis 109:101

New Orleans – Toronto 126:108

Oklahoma – San Antonio 119:111

Denver – Houston 120:100

Utah – LA Clippers 125:112

Sacramento – Indiana 137:114

LA Lakers – Portland 128:109

mbl.is