Enginn áhugi á að leysa málið farsællega

Tindastóll vann Hauka í 1. umferð bikarkeppninnar en tapaði á …
Tindastóll vann Hauka í 1. umferð bikarkeppninnar en tapaði á kæru. Mbl.is/Árni Sæberg

Körfuknattleiksdeild Tindastóls hefur sent frá sér tilkynningu þar sem lýst er yfir gríðarlegum vonbrigðum með þann dóm áfrýjunardómstóls KKÍ að staðfesta 20:0 tap Tindastóls gegn Haukum í bikarkeppninni.

Tindastólsmenn voru með fjóra erlenda leikmenn inni á vellinum í örstuttan tíma en leikklukkan gekk ekki á meðan og þeir leiðréttu mistökin.

Í inngangi greinargerðar Tindastóls segir:

Nú er fallinn dómur áfrýjunardómstóls KKÍ í máli okkar Tindastólsmanna gegn Haukum og má segja að niðurstaðan sé gríðarleg vonbrigði enda trúðum við alltaf að dómstólar myndu átta sig á hversu gölluð reglugerð KKÍ um fjölda erlendra leikmanna er. Því miður hafa dómstólar KKÍ lokið málinu.

Jafnframt viljum við koma okkar rökum í málsvörninni á framfæri enda teljum við að það sé almennur vilji í körfuknattleikshreyfingunni til að laga þessa gölluðu reglu að þeirri hugmynd sem er að baki hennar, að íslenskir leikmenn fái a.m.k. ákveðið magn af þeim mínútum sem leiknar eru í hverjum leik og það vita það allir að Tindastóll braut það ekki. Enginn íslenskur leikmaður missti sekúndu í þessu meinta broti.

Lokaorðin eru þessi:

Svo má velta fyrir sér hvað gerist ef sambærilegt atvik gerist í oddaleik í úrslitum þar sem er fullt hús og bein útsending og mikill áhugi. Þetta gerist í fyrsta leikhluta. Er þá einhver tilgangur fyrir liðin að klára leikinn, hann mun enda 20-0. Það væri sannarlega vont fyrir ímynd körfuboltans ef það kæmi upp. Jafnvel verra en orð þjálfara sem á dögunum var dæmdur í eins leiks bann fyrir að skaða ímynd körfuboltans í viðtali.

Það sem hryggir okkur mest í þessu máli er að það virtist enginn áhugi vera hjá forystu KKÍ að leysa málið farsællega fyrir hreyfinguna, taka af skarið og aðlaga regluna að því sem hún er samin til og láta málið niður falla. Til þess fékk forystan mörg tækifæri.

Tilkynningin í heild sinni var birt á Feyki.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert