Toppliðin töpuðu á heimavelli

Anthony Davis keyrir á Giannis Antetokounmpo í nótt.
Anthony Davis keyrir á Giannis Antetokounmpo í nótt. AFP/Patrick McDermott

Ellefu leikir fóru fram í NBA-deildinni í körfubolta í nótt. Anthony Davis skoraði 44 stig og bætti stigamet sitt á leiktíðinni og tók 10 fráköst að auki fyrir Los Angeles Lakers í góðum 133:129 útisigri á Milwaukee Bucks.

LeBron James skoraði 28 stig, tók átta fráköst og var með 11 stoðsendingar fyrir gestina. Giannis Antetokounmpo skoraði 40 stig, tók sjö fráköst og átti fimm stoðsendingar fyrir Milwaukee en það dugði ekki til.

Lakers sitja í 12. sæti Vestur-deildarinnar með níu sigra að loknum 21 leik en Milwaukee er í öðru sæti Austur-deildarinnar með 15 sigra að loknum 21 leik.

Þrátt fyrir 37 metstigafjölda Jaylen Brown á leiktíðinni að viðbættum 14 fráköstum tókst Boston Celtics ekki að leggja Miami Heat að velli í seinni leik tvíhöfða liðanna í Boston.

Bam Adebayo skoraði 28 stig og tók sjö fráköst og Tyler Herro skoraði 26 stig en atkvæðamestur í liði gestanna frá Miami var þó Jimmy Butler sem skoraði 25 stig og tók 15 fráköst til viðbótar í 120:116 útisigri eftir framlengingu.

Miami stöðvaði fimm leikja sigurgöngu Boston sem er þó enn á toppi Austur-deildarinnar með 18 sigra í 23 leikjum. Miami situr í níunda sætinu með 11 sigra í 23 leikjum.

Úrslit næt­ur­inn­ar í NBA-deild­inni:

Golden State – Chicago 119:111
Phoenix - Houston 121:122
Utah - Indiana 139:119
Memphis - Philadelphia 117:109
San Antonio - New Orleans 99:117
Atlanta - Denver 117:109
Boston - Miami 116:120 (eftir framl.)
Brooklyn - Toronto 114:105
Cleveland - Orlando 107:96
Milwaukee - LA Lakers 129:133
Charlotte - Washington 117:116

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert